John F. Kerry með dóttur sinni, Vanessu (t.v.), stjúpsyninum Chris og eiginkonu sinni, Teresu Heinz, á sigurhátíð í Washington í fyrrakvöld. Kerry verður formlega útnefndur forsetaefni demókrata í sumar.
John F. Kerry með dóttur sinni, Vanessu (t.v.), stjúpsyninum Chris og eiginkonu sinni, Teresu Heinz, á sigurhátíð í Washington í fyrrakvöld. Kerry verður formlega útnefndur forsetaefni demókrata í sumar. — Reuters
John F. Kerry sigraði í baráttunni við keppinauta sína úr röðum bandarískra demókrata en hún kann að reynast barnaleikur miðað við það sem koma skal því að Bush forseti hefur blásið til stórsóknar gegn honum með mikilli auglýsingaherferð sem hefst í kvöld.
John F. Kerry, öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts, sigraði í níu ríkjum af tíu í forkosningum demókrata í fyrradag og ljóst er því að hann verður forsetaefni þeirra í kosningunum í nóvember. Baráttan um Hvíta húsið er hins vegar rétt að hefjast og öldungadeildarþingmaðurinn stendur nú frammi fyrir hættulegasta áfanga hennar því að repúblikanar hefja í kvöld mikla auglýsingaherferð í sjónvarpi. Kerry verður þar lýst sem of frjálslyndum stjórnmálamanni og of óstaðföstum til að hægt sé að treysta honum til að verja öryggishagsmuni Bandaríkjanna á hættulegum tímum.

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur safnað 142 milljónum dala, tæpum tíu milljörðum króna, og auglýsingaherferð hans hefst á versta tíma fyrir Kerry sem er illa í stakk búinn að svara fyrir sig þegar í stað. Hann hefur nú aðeins úr fimm milljónum dala, 350 milljónum króna, úr að spila og þarf að kasta mæðinni eftir tveggja mánaða látlausa kosningabaráttu.

Kerry naut góðs af "ókeypis fjölmiðlaumfjöllun" á þessum tíma en nú þarf hann að leggja allt kapp á að safna meira fé og óhjákvæmilegt þykir að hlé verði á baráttu hans í vor fyrir landsfund demókrata í sumar. Bush hyggst fylla þetta tómarúm með auglýsingaherferðinni og stendur einnig betur að vígi að því leyti að hann getur alltaf komist í kvöldfréttir sjónvarpsstöðvanna með störfum sínum sem forseti.

Vita enn fátt um Kerry

Fyrir forkosningarnar var Kelly álitinn sigurstranglegastur um skeið, átti síðan á brattann að sækja en þegar á hólminn var komið sigraði hann keppinauta sína á sex vikum. Á þessum tíma komst hann hjá verulegum pólitískum áföllum og einhugurinn hefur verið óvenju mikill meðal demókrata sem hafa fylkt sér um Kerry þar sem þeir telja hann líklegastan til að geta sigrað Bush. Allar fylkingarnar í flokki demókrata - þeirra á meðal fulltrúar minnihlutahópa og verkalýðsfélaga - telja Kerry viðunandi og jafnvel góðan kost.

Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að Kerry myndi sigra Bush ef kosið væri nú. "Kerry kom mjög vel út úr forkosningunum, er álitinn öflugt forsetaefni og í góðri aðstöðu til að etja kappi við Bush," sagði Bill Carrick, ráðgjafi fulltrúadeildarþingmannsins Richards A. Gephardts í forkosningunum. Hann bætti við Kerry nyti góðs af því að vera reyndur öldungadeildarþingmaður og álitinn stríðshetja.

Margir Bandaríkjamenn, ef ekki flestir, vita þó enn fátt um viðhorf Kerrys, sem er sextugur, hefur setið í öldungadeildinni í fjögur kjörtímabil og barðist í Víetnamstríðinu. Niðurstaða kosningabaráttunnar næstu átta mánuðina gæti því að miklu leyti ráðist af því hvort Kerry tekst að verjast gagnsókninni sem repúblikanar hafa blásið til.

Mjög harðvítug barátta framundan

"Það er viðtekin regla í stjórnmálum að þegar sitjandi forseti kemst í hann krappan þá reynir hann að láta baráttuna snúast um keppinautinn. Ég tel að þetta sé það sem Bush og repúblikanar reyni," sagði David Axelrod, ráðgjafi öldungadeildarþingmannsins Johns Edwards sem ákvað að draga framboð sitt til baka eftir forkosningarnar á þriðjudag. "Ég tel líka að þetta verði mjög harðvítug barátta."

Fyrstu sjónvarpsauglýsingar Bush verða sýndar í kvöld. Búist er við að auglýsingaherferðin kosti yfir 100 milljónir dala, sjö milljarða króna, og verði hin dýrasta í sögu forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Þótt talið sé nánast öruggt að Kerry geti ekki safnað jafnmiklu fé segjast aðstoðarmenn hans bjartsýnir á að fjársöfnun hans gangi vel vegna þess að demókratar séu mjög ákafir í að koma í veg fyrir að Bush nái endurkjöri.

Búist er við að fyrstu auglýsingar forsetans verði fremur hófstilltar og lögð verði áhersla á að það sé landinu fyrir bestu að Bush verði við völd í fjögur ár til viðbótar. Kosningasérfræðingar í báðum flokkum telja þó að Bush beiti síðar sömu aðferð og Bill Clinton þegar hann náði endurkjöri 1996 og sigraði forsetaefni repúblikana, Bob Dole öldungadeildarþingmann. Bush reyni þá að finna veika bletti á Kerry eftir langan feril hans í öldungadeildinni og dragi upp neikvæða mynd af honum sem stjórnmálamanni.

Í svipaðri stöðu og Dole

Kerry er í svipaðri stöðu og Dole sem naut mests fylgis í skoðanakönnunum um það leyti sem hann tryggði sér sigur í forkosningum repúblikana. Kjósendurnir þekktu nafn hans en vissu fátt um hann og viðhorf hans. Demókratar notfærðu sér þennan veikleika í auglýsingum og tengdu Dole við Newt Gingrich, einn af óvinsælustu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á þeim tíma.

"Þótt Dole hafi tekið þátt í þjóðmálunum í 25 ár má segja að enginn hafi vitað hver hann var," sagði Scott Reed, kosningastjóri Doles 1996. "Ég tel að Kerry sé kominn að þessum áfanga núna þegar hann reynir að sameina flokk sinn og stendur frammi fyrir gagnsókn Bush."

Reed sagði að sigur Kerrys væri líkastur ævintýri og nefndi Öskubusku í því sambandi. Hann bætti þó við Kerry væri ekki vel undir það búinn að heyja harðvítuga baráttu við repúblikana þar sem hann hefði ekki þurft að verjast harðri gagnrýni frá keppinautum sínum úr röðum demókrata.

Bent á mótsagnir og frjálslynda afstöðu Kerrys

Líklegt þykir að í auglýsingaherferðinni leggi repúblikanar áherslu á að Bandaríkin heyi nú stríð og kjósendur geti ekki treyst Kerry til að verja öryggishagsmuni landsins. Í ræðu sem hann flutti í vikunni sem leið sakaði hann Bush um að hafa ekki gert nóg til að efla herinn og byggja upp heimavarnir en búist er við að repúblikanar bendi á ýmsar mótsagnir í afstöðu Kerrys í öryggismálum í öldungadeildinni. Þeir veki til að mynda athygli á að hann greiddi atkvæði með því að fjárframlög til njósnastofnana yrðu skert og gegn því að auknu fé yrði varið til að þróa ný vopn, auk sem hann lagðist gegn Persaflóastyrjöldinni 1991.

Líklegt þykir að repúblikanar veki einnig athygli á frjálslyndri afstöðu Kerrys í atkvæðagreiðslum á þinginu um samfélagsmál. Líkt og flestir stjórnmálamenn Massachusetts þykir hann mjög frjálslyndur á bandarískan mælikvarða, er til að mynda andvígur dauðarefsingum, á móti hjónabandi samkynhneigðra en styður staðfesta sambúð, auk þess sem hann er hlynntur rétti kvenna til fóstureyðinga og takmörkunum við byssueign.

Nýleg úttekt vikublaðsins National Journal bendir reyndar til þess að í atkvæðagreiðslunum hafi Kerry verið frjálslyndari í samfélagsmálum en nokkur annar þingmaður sem á nú sæti í öldungadeildinni.

Kerry vísaði þessari lýsingu á bug, sagði hana "hlægilega", "kjánalega" og "það alfáránlegasta" sem hann hefði heyrt á ævinni.

Merle Black, stjórnmálafræðingur við Emory-háskóla, telur þó að Kerry þurfi að koma fram með "betri svör en þetta og verja þá afstöðu sem hann hefur tekið í einstökum málum".

Washington. The Baltimore Sun, Newsday, The Washington Post.