Samansaumaður: Sigurður Sveinn Sigurðsson, fyrirliði Skautafélags Akureyrar, fékk mikið högg á andlitið í íshokkíleik um síðustu helgi.
Samansaumaður: Sigurður Sveinn Sigurðsson, fyrirliði Skautafélags Akureyrar, fékk mikið högg á andlitið í íshokkíleik um síðustu helgi. — Morgunblaðið/Kristján
ÞRÁTT fyrir að leikmenn í íshokkí séu vel varðir í leikjum, geta þeir engu að síður orðið fyrir meiðslum og það fékk Sigurður Sveinn Sigurðsson, fyrirliði Skautafélags Akureyrar, að reyna í leik gegn Birninum um síðustu helgi.
ÞRÁTT fyrir að leikmenn í íshokkí séu vel varðir í leikjum, geta þeir engu að síður orðið fyrir meiðslum og það fékk Sigurður Sveinn Sigurðsson, fyrirliði Skautafélags Akureyrar, að reyna í leik gegn Birninum um síðustu helgi. Snemma í þriðju lotu lentu Sigurður og leikmaður Bjarnarins í miklu samstuði, þar sem leikmaður Bjarnarins bar fyrir sig kylfuna, með þeim afleiðingum að Sigurður fékk mikið högg á andlitið og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Þar þurfti að sauma hann alls þrettán spor, í nef og kinn, auk þess sem vinstra augað nánast hvarf í bólgu. "Þetta var slys í hita leiksins og ég erfi þetta ekki við leikmanninn," sagði Sigurður og vildi ekki gera mikið úr atvikinu. "Það hafa svo sem allir gott af því að fá á kjaftinn annað slagið," sagði Sigurður en viðurkenndi þó að höggið hefði verið býsna þungt.

Það er mikið lagt upp úr öryggi í íshokkínu enda takast menn oft hressilega á á svellinu. Sigurður sagði að allir leikmenn sem fæddir væru 1974 eða síðar væru skyldugir að vera með hálft öryggisgler á hjálmi sínum eða grind og sjálfur er hann með gler á sínum hjálmi. Sigurður hefur marga fjöruna sopið í þessari hröðu og skemmtilegu íþrótt en hann hefur leikið með meistaraflokki frá því að keppni á Íslandsmótinu í íshokkí hófst og er nú á sínu 13. keppnistímabili. Hann hefur orðið Íslandsmeistari öll árin, 10 sinnum með SA og tvisvar með SR, árin 1999 og 2000. SA hefur haft mikla yfirburði á Íslandsmótinu í vetur og er með fullt hús. "Við stefnum að því að innbyrða 11. titilinn og það er fátt sem getur komið í veg fyrir það. Við erum í kunnuglegri yfirburðastöðu í deildinni." SA leikur tvo leiki fyrir sunnan um næstu helgi og hefur Sigurður sett stefnuna á að leika með liði sínu og þá með andlitsgrind en hvort af því verður skýrist ekki fyrr en nær dregur.