Sveppadósirnar hlið við hlið og má sjá hvernig skín í Ma Ling-miðann undir miðanum frá Íslensku meðlæti hf.
Sveppadósirnar hlið við hlið og má sjá hvernig skín í Ma Ling-miðann undir miðanum frá Íslensku meðlæti hf. — Morgunblaðið/Golli
HAFIN er innköllun á niðursoðnum sveppum sem Eggert Kristjánsson ehf. flytur inn og seldir eru undir merki Íslensks meðlætis hf. sem er vörumerki í eigu fyrirtækisins.
HAFIN er innköllun á niðursoðnum sveppum sem Eggert Kristjánsson ehf. flytur inn og seldir eru undir merki Íslensks meðlætis hf. sem er vörumerki í eigu fyrirtækisins. Svo virðist sem sveppirnir, sem pakkað er fyrir fyrirtækið erlendis og merktir sem þeir séu af fyrsta flokki, geti verið af þriðja flokki og hafa ekki fengist skýringar þessa efnis frá erlenda framleiðandanum enn sem komið er.

Gunnar Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Eggerts Kristjánssonar ehf., sagði að þeir litu málið mjög alvarlegum augum og væru þegar byrjaðir að innkalla vöruna úr verslunum. Þeir hefðu keypt vöruna í góðri trú að um fyrsta flokk væri að ræða, en þeir hefðu ekki enn náð sambandi við erlenda birginn, sem yrði að gefa skýringar í þessum efnum.

Íslenskum merkimiða vafið utan um erlendan

Uppvíst varð um málið þegar í ljós kom að miðum með vörumerki Íslensks meðlætis hf. hafði verið vafið utan um dósir sem merktar voru Ma Ling, en sveppunum er pakkað í Kína. Á íslenska merkimiðanum er talað um fyrsta flokks sveppi en á merkimiða Ma Ling kemur fram að um þriðja flokks sveppi er að ræða.

Sveppir merktir Íslensku meðlæti hf. og Ma Ling voru seldir hlið við hlið í lágvöruverðsverslunum. Kostaði dósin af sveppum merktum Ma Ling 59 kr. en sveppadós merkt Íslensku meðlæti 77 kr. þó að svo virðist sem um sömu vöruna sé að ræða.