HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær Bjarna Sigurðsson í 3½ árs fangelsi fyrir skjalafals og fjársvik í tengslum við rekstur á fasteignasölu. Bjarni var ákærður fyrir að hafa dregið sér um 158 milljónir króna.
HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær Bjarna Sigurðsson í 3½ árs fangelsi fyrir skjalafals og fjársvik í tengslum við rekstur á fasteignasölu. Bjarni var ákærður fyrir að hafa dregið sér um 158 milljónir króna. Þá var ákærði sviptur löggildingu til að starfa sem fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Hann var einnig dæmdur til að greiða 11,3 milljónir í sekt til ríkissjóðs og til að greiða Íbúðalánasjóði rúmar 37 milljónir í bætur, Verðbréfastofunni 27,8 milljónir í bætur, Sparisjóði Keflavíkur rúmar 10 milljónir, Virðingu hf. tæpar 3,5 milljónir, S. Grétarssyni ehf. rúmar 3,2 milljónir og nokkrum einstaklingum samtals tæpar 4,5 milljónir.

Ákærði var löggiltur fasteignasali, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Fasteignasölunnar Holts ehf. í Kópavogi. Hann var ákærður fyrir skjalafals og fjársvik gagnvart Íbúðalánasjóði, Verðbréfastofunni hf. og Virðingu hf. með því að hafa á tímabilinu frá janúar 2002 til október 2002 notað fasteignaveðbréf Íbúðalánasjóðs og yfirlýsingar um ráðstöfun andvirðis viðbótarlána frá Íbúðalánasjóði, eftir að hann hafði falsað og breytt framsölum á fasteignaveðbréfunum og upplýsingum um ráðstöfun andvirðis viðbótarlána á yfirlýsingunum, sem hann hafði fengið í hendur frá viðskiptavinum fasteignasölunnar.

Með þessu hafði ákærði samtals 96 milljónir króna af viðskiptavinum fasteignasölunnar þegar hann ýmist tók sér andvirði veðbréfanna eða blekkti aðila til að ráðstafa andvirðinu á grundvelli falsananna.

Dró sér 62,4 milljónir króna í 24 skipti

Þá var ákærði sakaður um fjárdrátt með því að hafa dregið sér í 24 skipti, á tímabilinu frá 29. nóvember 2001 til 24. október 2002, samtals 62,4 milljónir sem hann fékk í eigin vörslur og Fasteignasölunnar Holts frá viðskiptavinum fasteignasölunnar í tengslum við milligöngu hennar um sölu á fasteignum.

Ákærði játaði sakir fyrir dómi. Hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa sem fyrirsvarsmaður Fasteignasölunnar Holts ekki staðið skil á virðisaukaskatti, sem lagður var á félagið vegna tímabilsins frá nóvember 2001 til og með apríl 2002, samtals 2,8 milljónir króna, og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem hann hélt eftir af launum starfsmanna félagsins frá janúar til og með júlí 2002, alls 2.826.739 krónur.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og segir í dómnum að hann hafi verið samvinnufús við lögreglurannsókn málsins og gengist greiðlega við þeim sakargiftum sem hann var borinn. Að þessu frágengnu eigi hann sér engar málsbætur.

"Þau brot sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir og tengjast skjölum og fjármunum sem honum hafði verið trúað fyrir vegna starfs síns sem fasteignasali eru mjög stórfelld. Með háttsemi sinni braut ákærði gróflega gegn hagsmunum skjólstæðinga sinna í skjóli opinberrar löggildingar sem honum hafði verið veitt til að starfa sem fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali og olli umtalsverðu tjóni sem hann hefur ekki bætt nema að óverulegu leyti. Til þyngingar á refsingu horfir ennfremur að brotavilji ákærða var einbeittur," segir m.a. í dómnum.

Málið dæmdi Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari. Verjandi ákærða var Gylfi Thorlacius hrl. og sækjandi Helgi Magnús Gunnarsson, fulltrúi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.