[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fáskrúðsfjörður | "Þeir eru montnir Fáskrúðsfjarðarmegin yfir hvernig gengur og við erum hissa á því að þeir séu ekki komnir lengra, miðað við hvernig þeir láta," segir Þórir Sigurðsson, verkstjóri hjá Ístaki í Fáskrúðsfjarðargöngum.
Fáskrúðsfjörður | "Þeir eru montnir Fáskrúðsfjarðarmegin yfir hvernig gengur og við erum hissa á því að þeir séu ekki komnir lengra, miðað við hvernig þeir láta," segir Þórir Sigurðsson, verkstjóri hjá Ístaki í Fáskrúðsfjarðargöngum.

Albert Kemp, fréttaritari Morgunblaðsins á Fáskrúðsfirði, brá sér í göngin Reyðarfjarðarmegin á dögunum og komst að því að nokkurt kapp er hlaupið í gangamenn og metast þeir um hvort gengið fer fljótar gegnum fjallið með tækjum sínum og tólum.

"Það er fínt að vera í vinnu hérna," segir Þórir. "Vinnuaðstaðan er góð, fyrirtækið ágætt og við erum með góð tæki. Fengum nýjan þriggja bóma borvagn í fyrra. Hann er tölvuvæddur og menn sitja bara í þægilegum sætum meðan miðað er út fyrir borana með leysigeisla og borað í."

Sprengt tvisvar á sólarhring

"Mesta hættan fyrir mennina í göngunum er grjóthrun úr stafni og lofti," heldur Þórir áfram. "Þegar verið er að hlaða sprengiefninu í holurnar í stafninum er mest hættan á hruni. Bergið vill líka losna í borun."

Þórir lýsir verkferlinu svo að fyrst sé hafist handa um að losa burtu lausa steina í lofti. "Svo förum við að bora. Boraðar eru tæpar 100 holur, fimm metra inn og það tekur hátt í fjórar klukkustundir. Allir fara út úr göngunum og við sprengjum. Þegar sprengt er kastast megnið af berginu 10-15 metra út í göngin í einn haug, en svo geta steinar skotist 200-300 metra fram í göngin. Þegar reykurinn er farinn byrjar útmokstur og eftir það förum við með fleyga eða vélsprota á bergið til að ná því niður sem situr laust. Þegar því er lokið þvoum við bergið og sprautusteypum og boltum til styrkingar í framhaldinu, þannig að klappirnar inni í berginu hreyfist ekkert. Eftir það getum við farið að bora aftur og þá er kominn einn hringur.

Við höfum náð því að sprengja einu sinni á vakt sem er þá tvisvar á sólarhring. Það er svipað hinum megin. Reyndar höfum við komist upp í að sprengja þrisvar á sólarhring en það verður að vera mjög gott fjall til þess og þeir ná þessu oftar Fáskrúðsfjarðarmegin, þar sem fjallið er betra."

Bergið allt á hreyfingu

Þórir segir sex menn vera á vaktinni inni í fjallinu á hverjum tíma. "Inni í göngunum er öryggisbúnaður, svokallaður lífgámur, ef eitthvað gerist. Til dæmis ef hrynur úr berginu, göngin lokast eða kviknar í."

Tvíbreiður vegur verður í göngunum og eru útskot með 500 m bili og jafnframt tvö stærri útskot þar sem hægt verður að snúa við dráttarbílum. Er þetta sambærilegt við hvernig háttar til í Hvalfjarðargöngum.

Þórir segir jarðgangavinnu mikið breytta frá því sem áður var. "Leisigeisli sér um að stilla vagninn inn og halda okkur á réttri stefnu svo við lendum nú örugglega á Fáskrúðsfirði!"

Þegar lokið verður við að bora göngin, sem gæti orðið seint í sumar, er töluverð vinna eftir við lokastyrkingu og frágang. "Það er auðvitað mikil spenna í berginu sem þarf að taka tillit til," segir Þórir. "Þegar svona hátt fjall er ofan á göngunum myndast spenna í berginu, þannig að maður heyrir smelli þegar fjallið pressast saman. Í svona spennu geta blokkir í veggjum þrýst inn og við komum sjálfsagt til með að styrkja veggina betur eftir því sem að þrýstingurinn eykst. Það gerist í jöfnu hlutfalli við fargið ofan á, eftir því sem hærra er upp í fjallstoppinn."