SVEITARSTJÓRN Aðaldælahrepps fjallaði á fundi sínum í gær um frumvarp til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.
SVEITARSTJÓRN Aðaldælahrepps fjallaði á fundi sínum í gær um frumvarp til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar var eftirfarandi bókun samþykkt:

"Sveitarstjórn ræddi frumvarp til laga um verndun Laxár og Mývatns sem hún tók fyrir á fundi sínum 3. apríl 2003. Þá var bráðabirgðaákvæði III ekki inni í frumvarpinu. Það ákvæði er svohljóðandi: "Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. getur Umhverfisstofnun heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva I og III efst í Laxárgljúfri, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000, og að fengnu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2014.

Sveitarstjórn Aðaldælahrepps lýsir samþykki sínu við bráðabirgðaákvæði III enda gefi það Landsvirkjun og heimamönnum möguleika á að finna viðhlítandi lausn á rekstrarvanda Laxárvirkjunar án þess að ganga of nærri lífríki Laxár í Þingeyjarsýslu."