LEITIN að björgunarskipinu sem skolaðist fyrir borð af Skaftafelli í stórsjó í fyrrakvöld bar ekki árangur í gær og fundust engin ummerki um skipið.
LEITIN að björgunarskipinu sem skolaðist fyrir borð af Skaftafelli í stórsjó í fyrrakvöld bar ekki árangur í gær og fundust engin ummerki um skipið. Leitað var meðfram ströndinni frá Selatöngum að Krýsuvíkurbergi ásamt því að Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar leitaði úr lofti.

Björgunarskipið er 43 tonn að stærð og rúmlega 16 metra langt.

Um 10-12 metra ölduhæð var þegar skipið fór útbyrðis og var beðið með leit vegna veðurs fram til miðvikudagsmorguns. Óvíst er hvort skipið er sokkið eður ei, en skip af þessu tagi eru illsökkvanleg og eiga að geta rétt sig við ef þeim hvolfir. Hins vegar gæti hafa komið gat á skrokkinn og það sokkið, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.