FRANZ Fischler, framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu, segist gjarnan vilja að Ísland og Noregur sæki um aðild að sambandinu. Hann segir að ekki eigi aðeins að stækka sambandið til austurs. Evrópusambandsþjóðunum fjölgar um tíu í maí nk.

FRANZ Fischler, framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu, segist gjarnan vilja að Ísland og Noregur sæki um aðild að sambandinu. Hann segir að ekki eigi aðeins að stækka sambandið til austurs.

Evrópusambandsþjóðunum fjölgar um tíu í maí nk. en nýju aðildarþjóðirnar eru einkum í Mið- og Austur-Evrópu. Í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish minnir Fischler á að þjóðir á borð við Ísland, Noreg og Sviss standi enn utan ESB.

Hann segir hefð fyrir samvinnu sambandsins við Ísland og Noreg um stjórn fiskveiða en gerir sér samt grein fyrir að í þessum löndum hafi margir efasemdir um fiskveiðistefnu sambandsins.

Hann telur að fiskveiðistefnan sé samt sem áður ekki ástæða þess að þjóðirnar standi enn utan ESB. Það eigi einkum við um Noreg en málin séu hins vegar flóknari þegar kemur að hugsanlegri aðild Íslendinga.

ESB tilbúið að koma til móts við kröfur Íslendinga

Segir Fischler að ESB líti til að mynda hvalveiðar Íslendinga hornauga, auk þess sem fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga sé nokkuð frábrugðið fiskveiðistefnu ESB.

Fischler segir útilokað að ESB breyti fiskveiðistjórnunarkerfi sínu til samræmis við það íslenska, aðeins til að Ísland geti fengið aðild að sambandinu. Íslendingar þyrftu frekar að breyta sínu kerfi.

Hann segir ESB engu að síður tilbúið að koma til móts við kröfur Íslendinga.