Að takmarka þá neyslu sem íbúar velmegunarríkja hafa vanið sig á er sennilega margfalt erfiðara en að aðstoða fátæka. Það er erfitt að hætta öllu þessu "indæla" óþarfa bruðli.
Einu sinni var fullyrt á Vesturlöndum: "Það gengur bara alls ekki að allar kínverskar fjölskyldur eignist ísskáp, það yrði allt of mikil mengun." Freon-kerfið í kælitækjum var ástæða óttans.

Tvennt er rangt við þessa fullyrðingu. Annars vegar felst í henni að ekki sé pláss fyrir fleiri velmegunarríki. Jörðin þoli ekki meiri neyslu, mengun og spillingu sem henni óhjákvæmlega fylgi.

Hins vegar að hún gefur ekki möguleika á þeirri hugsun að velmegunarþjóðirnar geti dregið úr neyslu sinni til að skapa rými fyrir meiri neyslu þróunarríkjanna. Þetta atriði felur einmitt í sér meginhugsunina í hugtakinu sjálfbær þróun. Velmegunarþjóðirnar hafa nú á annan áratug gert veika tilraun til að tileinka sér aðferðafræði sjálfbærrar þróunar. Niðurstaðan er að þeirra eigin neysla hefur aukist og ríkisstjórnir þeirra hafa veitt minna fé en áður til þróunaraðstoðar.

Áfromin voru fögur, t.d. setti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks fram stefnu sína í umhverfismálum árið 1993. Helsta markmið stjórnarinnar var að "Ísland verði um næstu aldamót hreinasta land hins vestræna heims og ímynd hreinleika og sjálfbærrar þróunar tengist allri atvinnustarfsemi í landinu."

Hugsunin mótaðist annars vegar af ótta við þynningu ósonlagsins og hins vegar því að Gro Harlem Brundtland, formaður umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna 1992, hafði staðið fyrir áhrifamikilli umhverfisráðstefnu í Rio de Janeiro í Brasilíu. Samþykkt niðurstaða nefndarinnar varð þessi:

"Sjálfbær þróun er uppbygging sem fullnægir þörfum nútímans án þess að stofna í hættu getu kynslóða framtíðarinnar til að fullnægja þörfum sínum. Hún inniheldur tvö lykilhugtök: hugtakið "þarfir", sérstaklega frumþarfir hinna fátæku í heiminum sem ættu að fá ýtrasta forgangsrétt; og hugtakið um "takmarkanir" sem tækni og skipulag setur möguleikum umhverfisins til að mæta þörfum nútíðar og framtíðar." (Brundtland-skýrslan: Our Common Future, bls. 43.)

Lykilhugtökin fela í sér svarið við fullyrðingunni um ísskápana í Kína eða að um leið og þörfum þróunarríkja er sinnt þurfi velmegunarríki að draga úr neyslu. Annars geta þau aldrei mæst á miðri leið.

Þekking hérlendis á meginviðmiðum sjálfbærrar þróunar reyndist ekki mikil samkvæmt viðhorfskönnun sem Þorvarður Árnason, náttúrufræðingur og verkefnisstjóri hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, og samstarfsfólk gerði á umhverfisvitund Íslendinga á vormánuðum 2003. (Mbl. 15.02.04.)

Þar kom fram að þeir tveir þættir sem snúa mest að svarendunum sjálfum: 1. Að minnka neyslu almennings á Vesturlöndum. 2. Að auka áhrif almennings í ákvörðunum um umhverfismál, vega áberandi minnst að mati svarenda fyrir sjálfbæra þróun. Spurt var um mikilvægi heimsmála fyrir sjálfbæra þróun annars vegar fyrir veröldina sjálfa og hins vegar fyrir þátttakendur sjálfa. Langmikilvægust voru talin atriðin að búa í haginn fyrir velferð komandi kynslóða og að bæta lífskjör í fátækum löndum. Önnur mikilvæg atriði voru talin að auka nýtni í meðferð náttúruauðlinda, sporna gegn hnattrænum umhverfisvandamálum og að auka hagvöxt á Íslandi og í ríkjum heims. Breyting á eigin hegðun hugnast því fólki síst.

Að takmarka þá neyslu sem íbúar velmegunarríkja hafa vanið sig á er sennilega margfalt erfiðara en að aðstoða fátæka. Hugmyndin að draga úr öllum þessum óþarfa sem maður hefur vanið sig á er ekki vinsæl: Að stramma sig af jafnvel niður í einn bíl á heimili, eitt sjónvarp, einn kæliskáp, eina tölvu, einn síma. Ganga, hjóla, taka strætó, hafna óþarfa umbúðum á vörum, flokka sorp, setja dagblöð, rafhlöður, mjólkurfernur og fleira í endurvinnslu. Er það ekki til of mikils mælst?

Leiðirnar til að vinna gegn eigin neyslu og áhrifum hennar á þynningu ósonlagsins, gróðurhúsaáhrifin, mengun vegna geislavirkra efna og á afkomu ýmissa lífverutegunda eru lítt kunnar í (neyslu)samfélaginu. Orðtakið "margt smátt gerir eitt stórt" á vel við í þessu atriði, því Íslendingar eru upp til hópa þjóð neyslunnar. Hér er varla gert við tæki lengur. Bili sími borgar sig ekki að gera við hann, tölva, sjónvarp, útvarp og önnur heimilistæki eru einnota í þeirri merkingu að við þætta fæst varla gert. Hvað þá skó, föt eða annað þvíumlíkt. Fatnaðurinn er svo bara sendur í dýrum gámum og með góðri samvisku til Afríku þar sem sólin skín, og engum myndi hugkvæmast að ganga í álafossúlpu með trefil, eða rifnum gallabuxum frá Noregi. (Litskrúðugt efni í klæði er betur þegið.)

Stemmningin í (neyslu)samfélaginu er óhjákvæmilega afar hlynnt neyslunni. Kerfi hennar er þess eðlis að mikið vill meira. Skeri sig einhver úr og selji bílinn til að ganga, hjóla og fara í strætó verður hann fyrir einhvers konar (neyslu)elti. Stemmningin er miklu frekar að skipta úr fólksbíl í jeppa þótt maður hafi ekkert að gera við hann og geyma vélsleða í garðinum.

Neysla af þessari stærðargráðu eykur nú enn bilið milli velmegunar- og þróunarríkja. Sjálfbær þróun var vonarkenning jafnt velmegunar- sem þróunarríkjanna. Ef til vill hefur hún brugðist.

Bráðabirgðaniðurstaða: Breytum eigin (neyslu)hegðun! (Eða endurskoðum kenninguna.)

Eftir Gunnar Hersvein guhe@mbl.is