Félagar í Hugarafli: Garðar Jónasson, Einar Björnsson, Auður Axelsdóttir, Jón Ari Arason og Bergþór Grétar Böðvarsson.
Félagar í Hugarafli: Garðar Jónasson, Einar Björnsson, Auður Axelsdóttir, Jón Ari Arason og Bergþór Grétar Böðvarsson. — Morgunblaðið/Jim Smart
HUGARAFL, félag einstaklinga sem átt hafa við geðræn vandamál að stríða en eru nú á batavegi sem og fagaðila í geðheilbrigðisþjónustu, vilja að þeir sem þurfa að nota geðheilbrigðisþjónustu geti haft áhrif á hana með ýmsum hætti og miðlað þar með af...

HUGARAFL, félag einstaklinga sem átt hafa við geðræn vandamál að stríða en eru nú á batavegi sem og fagaðila í geðheilbrigðisþjónustu, vilja að þeir sem þurfa að nota geðheilbrigðisþjónustu geti haft áhrif á hana með ýmsum hætti og miðlað þar með af reynslu sinni, öðrum til aðstoðar. Markmið hópsins er því að efla þjónustu við geðfatlaða og koma fram með nýjar áherslur í geðheilbrigðismálum. "Við viljum efla áhrif þeirra sem þjónustuna sækja og auka samvinnu fagfólks og þeirra sem glíma við geðsjúkdóma á jafningjagrundvelli sem og að auka þekkingu," segir Auður Axelsdóttir, formaður hópsins og iðjuþjálfi hjá Heilsugæslunni í Reykjavík. Telur hópurinn að tími sé kominn til að finna nýjar leiðir til að bæta líðan geðsjúkra og að til þess sé breytt viðhorf nauðsynlegt.

Félagið stofnað í september

Í september á síðasta ári var gerður samningur á milli Tryggingastofnunar og Heilsugæslunnar um eftirfylgni iðjuþjálfa við geðsjúka. Hugarafl var stofnað í framhaldi af því og hefur allar götur síðan beitt sér m.a. fyrir því að miðla upplýsingum um þá geðheilbrigðisþjónustu sem þegar er í boði og að vinna að nýsköpunarverkefni sem fékk styrk frá félagsmálaráðuneytinu í tilefni af Ári fatlaðra. Var hópurinn sá eini innan geðheilbrigðisgeirans sem fékk styrk af þessu tilefni. Hugarafl hefur einnig fengið jákvæð viðbrögð hjá Heilbrigðisráðuneytinu.

Hlutverkasetur í bígerð

Nýsköpunarverkefnið felst í að þróa það sem Hugarafl kýs að kalla Hlutverkasetur; kaffihús sem verður samtvinnað margskonar starfsemi á borð við útgáfustarfsemi, fræðslu, vinnu við tenglakerfi, margs konar rannsóknarvinnu og starfsþjálfun svo eitthvað sé nefnt. Hlutverkasetrið er hugsað fyrir þá sem hafa vegna veikinda, t.d. geðrænna, annarrar fötlunar eða atvinnuleysis orðið óvirkir í samfélaginu. "Við teljum mjög mikilvægt að virkja einstaklingana," segir Einar Björnsson félagi í Hugarafli, en hugsunin er sú að í Hlutverkasetrinu vinni fólk sem er á batavegi. "Okkar reynsla er sú að þegar fólk dettur út úr samfélaginu þá verða veikindin verri, fólk leggst frekar inn á sjúkrahús og þarf meiri aðstoð og umönnun. Setrið er ætlað þeim sem eru aftur að byrja að fóta sig í samfélaginu."

Hópurinn leggur áherslu á að Hlutverkasetrið er ekki meðferðarstaður heldur vettvangur þar sem hægt er að hafa hlutverk og láta gott af sér leiða. "Hugmyndin er að einstaklingurinn skapi sér hlutverk, finni það hjá sér að hann er metinn að verðleikum," segir Garðar Jónasson, félagsmaður í Hugarafli.

"Hugmyndum okkar hefur verið mjög vel tekið og mjög margir hafa heimsótt heimasíðuna okkar, hugarafl.is," segir Bergþór Grétar Böðvarsson, einn af félögum hópsins. Hópurinn segir að í raun væri hægt að opna setrið á skömmum tíma, fengist til þess nægt fjármagn. Þegar liggur fyrir viðskiptaáætlun en hópurinn segir að það verði leitað til opinberra aðila sem og fyrirtækja og athafnafólks um stuðning við að koma setrinu á stofn. "Það er hagur allra, ekki aðeins einstaklinganna sem myndu nýta sér setrið, að ná að virkja sem flesta til góðra verka," segir Einar.

"Okkar markmið er ekki að gagnrýna þá þjónustu sem fyrir er heldur viljum við að hún verði aukin, og að hún verði fjölbreyttari," segir Einar. Hann bendir á að talað sé um að 50 þúsund Íslendingar eigi við geðræn vandamál að stríða, "en meðferð við geðröskunum er miðuð við veikasta fólkið. Stórum hópi þessa fólks er því ekki sinnt. Það þyrfti að bregðast miklu fyrr við með því að upplýsa fólk um úrræði og um leið er nauðsynlegt að eyða fordómum sem ríkja í samfélaginu um geðraskanir."

Gagnabanki, útgáfa og fundur

Ætlun Hugarafls er að setja á stofn gagnabanka með upplýsingum um úrræði fyrir fólk með geðsjúkdóma og annan til með upplýsingum um styrkleika meðlima hópsins svo að allir fái verkefni sem henti þeim. Hugarafl hefur aðsetur á heilsugæslunni í Drápuhlíð og hittist þar tvisvar í viku og oftar þegar þörf krefur. Á kynningarfundi sem haldinn verður á laugardag verður starfsemi Hugarafls kynnt sem og nýsköpunarverkefnið Hlutverkasetrið. Þá leggja forsvarsmenn hópsins áherslu á að fundurinn sé ekki síst vettvangur fyrir hugmyndavinnu allra þeirra sem hann sækja. "Við viljum fá hugmyndir frá sem flestum þeirra sem áhuga hafa á málinu," segir Auður Axelsdóttir.

Á fundinum, sem haldinn verður á Kaffi Reykjavík milli kl. 13 og 16, verður dreift bæklingi sem Hugarafl hefur útbúið þar sem fjallað er um þjónustu fyrir geðsjúka. Einnig mun Hugarafl gefa út leiðbeiningabækling sem Jón Ari Arason hefur þýtt úr erlendri grein. Í honum eru leiðbeiningar um hvernig skuli halda virðingu og völdum í viðtali hjá geðlækni. Jón Ari segir: "Það er ekki hann [geðlæknirinn] sem á að stjórna fundinum heldur sá sem þjónustuna fær." Til stendur að gefa út efni um ýmis málefni sem tengjast geðheilbrigði í framtíðinni. Fundurinn er öllum opinn og fundarstjóri verður Héðinn Unnsteinsson.