HJÁLMAR Árnason alþingismaður segir fróðlegt að fylgjast með birtingarformi kjarabráttunnar síðustu vikur og mánuði. "Svo virðist sem aðildarfélög ASÍ setjist að samningaborði af festu en jafnframt mikilli ábyrgð.

HJÁLMAR Árnason alþingismaður segir fróðlegt að fylgjast með birtingarformi kjarabráttunnar síðustu vikur og mánuði. "Svo virðist sem aðildarfélög ASÍ setjist að samningaborði af festu en jafnframt mikilli ábyrgð. Menn gera sér grein fyrir þeim meginmarkmiðum að bæta kjör umbjóðenda sinna til lengri tíma. Óraunhæfar kröfur kunna að færa launþegum háar tölur til skamms tíma en ef kröfur vaxa úr hófi leysist úr læðingi hin illræmda verðbólga sem étur á ótrúlega skömmum tíma allar kjarabætur. Fulltrúar ASÍ skilja þessar staðreyndir og haga málum sínum í samræmi við það. Samningaviðræður virðast ganga vel og ber að virða hinna ábyrgu og málefnalegu nálgun fulltrúa umræddra stéttarfélaga. Hins vegar finnst mér yfirbragð ýmissa annarra hópa vera með öðrum brag. Nefni ég einkum lækna.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur verið haldið í gíslingu lækna í nokkuð langa hríð. Skipulagðar aðgerðir valda því að treglega gengur að fá þangað lækna þrátt fyrir metnaðarfull áform um uppbyggingu stofnunarinnar og þjónustu við íbúa Suðurnesja. Grunnur þessara aðgerða er launabarátta. Læknar vilja betri kjör en þeim eru boðin. Svo mikilvægt er starf þeirra hverju byggðarlagi að kröfum þeirra hefur verið mætt svo vel að Ríkisendurskoðun sér ástæðu til að gera athugasemdir og spyrja hvort launaþróun lækna sé í einhverjum takti við aðra hópa. Við erum að tala um laun sem ná allt að 20 milljónum á ári," segir Hjálmar.

HONUM finnst að læknar sæki kjör sín af meiri hörku og minni ábyrgð. "Örugglega gegnir þar sínu hlutverki sú sérstaða (einokun) sem stéttin ræður yfir samhliða mikilli virðingu okkar og nauðsyn fyrir störfum þeirra. Hins vegar finnst mér aðferðir þeirra á stundum fremur ósæmilegar. Hér að framan hefur verið nefnd gíslataka þeirra á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þá veit ég um fjölda fólks, sem leitað hefur til lækna, og fengið með læknishjálpinni ótæmandi skammt af svívirðingum um svokallaða ráðamenn sem ekkert vilji gera fyrir sjúklingana. Ekki líkar mér heldur þegar læknar og heilbrigðisstéttir boða fréttamenn á sinn fund, draga sjúklinga inn í viðtal eða a.m.k. á mynd um leið og þeir tala um fjárvöntun (lesist lág laun) til stofnunar sinnar. Finnst mér þetta jaðra við misnotkun á sjúklingum," segir Hjálmar.