Patrekur Jóhannesson sækir að marki Slóvena í leik í Evrópukeppninni í Slóveníu sem fram fór í byrjun ársins.
Patrekur Jóhannesson sækir að marki Slóvena í leik í Evrópukeppninni í Slóveníu sem fram fór í byrjun ársins. — Morgunblaðið/Sverrir
"EFTIR á að hyggja hefði ég ef til vill ekki átt að gefa kost á mér í landsliðið, en mig langaði til að vera með, taldi mig eiga erindi, og gaf þar af leiðandi kost á mér.

"EFTIR á að hyggja hefði ég ef til vill ekki átt að gefa kost á mér í landsliðið, en mig langaði til að vera með, taldi mig eiga erindi, og gaf þar af leiðandi kost á mér. Kannski var þetta röng ákvörðun, en mér fannst þegar ég tók hana að mér liði líkamlega vel, en vantaði meiri leikæfingu til þess að vera í standi fyrir stórmót," sagði Patrekur Jóhannesson, handknattleiksmaður hjá Bidasoa Spáni og landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gær en hann var einn þeirra leikmanna sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari fór yfir málin með á ferð sinni um Evrópu í síðustu viku.

Eftir Evrópumótið í Slóveníu var Patrekur óánægður með hlutskipti sitt í landsliðinu, hann lék lítið með því í aðdraganda keppninnar og jafnvel enn minna þegar á hólminn var komið. "Ég útskýrði fyrir Guðmundi hvernig ég upplifði þessa keppni og að það hefði verið erfitt að vera í þeirri stöðu sem ég var í. Það eru skýringar á því, svo sem sú að ég fór í aðgerð á hné í október og var lengi frá keppni af þeim sökum, alveg fram í lok nóvember. Þar af leiðandi hafði ég ekki leikið mjög marga leiki þegar kom að undirbúningi landsliðsins fyrir EM.

Ég var hins vegar ekki eini maðurinn í landsliðinu sem var ekki í fullkomnu lagi. Fúsi [Sigfús Sigurðsson] var slappur og Dagur [Sigurðsson] meiddur. Liðið í heild var ekki í nógu góðu standi til þess að ná toppárangri," segir Patrekur, sem telur að sökum þess hafi íslenska landsliðið sett sér alltof háleitt markmið fyrir EM, það er að vinna sinn riðil. Eftir fyrsta tapið í upphafsleik mótsins hafi vonbrigðin gert vart við sig þegar ljóst var að markmiðinu yrði líklega ekki náð.

Leysti hlutverk mitt illa

"Eftir á að hyggja var það meira óskhyggja en annað að vinna riðilinn, markmiðið var ekki raunhæft sökum þess að liðið var ekki í toppstandi líkamlega," segir Patrekur.

Hann segist ekki draga dul á vonbrigðin með eigin frammistöðu í keppninni. "Ég leysti mitt hlutverk illa þegar ég fékk tækifæri, það viðurkenni ég fúslega. Mér dettur ekki í hug að draga fjöður yfir það. Frammistaðan var ekki góð og ég verð eins og aðrir að draga minn lærdóm af þessu öllu saman."

Gefur þú kost á þér í íslenska landsliðið áfram?

"Ef ég verð valinn í næstu verkefni þá ætla ég að meta það í hvaða standi ég verð til þess að takast á við verkefnið. Svo fremi sem ég leik vel með félagsliði mínu og tel mig hafa eitthvað fram að færa með landsliðinu þá hef ég áhuga á að leika með því áfram. Það er hins vegar ekki alfarið í mínum höndum heldur hefur landsliðsþjálfarinn síðasta orðið í þeim efnum, hann velur landsliðið á hverjum tíma og það á enginn leikmaður að eiga fast sæti í því nema kannski Ólafur Stefánsson, sem er eini heimsklassa handknattleiksmaðurinn sem við eigum í dag."

Þú hefur ekki áhuga á að vera varaskeifa áfram eins og hlutskipti þitt var á EM?

"Auðvitað svarar maður allri samkeppni með því að sýna að maður eigi að vera númer eitt og það hef ég í hyggju að gera, verði ég áfram valinn í landsliðið. Því má heldur ekki gleyma að það eru nýir leikmenn að koma inn í hópinn, sem er jákvætt, og þá verður maður bara að horfast í augu við það með því að leggja sig meira fram. Besta liðið hverju sinni á að spila.

Á EM ákvað Guðmundur að veðja á aðra leikmenn en mig, það var hans ákvörðun og hann hefur sínar skýringar á því. Ég verð bara að sýna honum næst þegar hann velur mig, ef af því verður, að ég geti leikið betur en ég gerði í þau skipti sem ég fékk tækifæri í undanfara EM og í aðalkeppninni.

Ég fullyrði líka að þegar ég er í toppstandi þá á ég að vera maður númer eitt í mína stöðu og ég hyggst sýna það."

Hvernig tók Guðmundur þeirri gagnrýni þinni að hafir ekki fengið að leika nóg í undanfara EM og fá þannig að spila þig í form?

"Ég vil ekki fara of mikið ofan í tveggja manna tal okkar Guðmundar. En við ræddum þessi mál í mikilli hreinskilni. Hann sagðist velja það lið hverju sinni sem hann teldi vera best þá stundina. Hann taldi vænlegri kost að taka aðra leikmenn fram yfir mig að þessu sinni.

Í fyrsta æfingaleiknum gegn Sviss þá lék ég illa eins og allt liðið. En í næstu tveimur leikjum þar á eftir var mér hálfpartinn hent út. Því fannst mér mjög erfitt að kyngja. Það var mikil breyting fyrir mig að vera aftur kominn í hóp nýliðanna. Ég reyndi að takast á við þá stöðu eins vel og mögulegt var, var jákvæður og allt það. En þetta var ný og alls ekki skemmtileg staða að lenda í.

Síðan kom ég inn í leikina á EM gegn Slóvenum og Ungverjum og ætlaði mér að sjálfsögðu að gera mitt besta en ég gerði það ekki. Ég lék ekki mikið í keppninni og að sjálfsögðu hefði það verið best fyrir mig og landsliðið hefði mér tekist betur upp á þeim stutta tíma sem ég fékk, þá hefði ég getað sannað að landsliðsþjálfarinn hefði rangt fyrir sér. En þar sem ég náði mér ekki á strik þá get ég ósköp lítið sagt," segir Patrekur sem hefur átt sæti í byrjunarliðinu undanfarin ár og oft staðið sig vel, svo sem á EM í Svíþjóð fyrir tveimur árum.

Allir leikmenn verða að vera heilir ef árangur á að nást

"Auðvitað tek ég þessu mótlæti eins og öðru og læri af því. Það hefur sýnt sig að á undanförnum árum þegar íslenska landsliðið hefur náð árangri þá hef ég verið með og leikið vel, má þar nefna EM í Svíþjóð og HM í Kumamoto fyrir sjö árum.

Ef íslenska landsliðið ætlar að ná árangri þá tel ég að sem flestir leikmenn verði að vera í toppstandi, nefni ég þar mig, Ólaf, Dag, Guðjón Val, Fúsa og fleiri. Við eigum ekki það stóran hóp leikmanna að við megum við því að einhver sé ekki í toppstandi. Allir verða að vera að leika vel með sínum félagsliðum og hafa sjálfstraustið í lagi til þess að íslenska landsliðið geti náð toppárangri á stórmóti."

Patrekur segir það hafa verið afar gott fyrir sig að hitta Guðmund landsliðsþjálfara, hreinsa loftið og fara yfir stöðu mála að keppni lokinni. "Ég veit ekki hvað aðrir leikmenn segja en ég tel þetta hafa verið mikilvægt og er ánægður með að landsliðsþjálfarinn skuli hafa farið og hitt þá leikmenn sem voru með honum á EM.

Eftir á að hyggja voru það kannski mistök hjá mér að gefa kost á mér í landsliðið fyrir EM. Ég hef hins vegar alltaf haft þann metnað að vilja leika fyrir íslenska landsliðið á meðan ég tel mig hafa eitthvað fram að færa. Síðan er það annarra að ákveða hvort sú er raunin.

Nú verðum við bara að sjá til hvernig yfirstandandi leiktíð fer hjá Bidasoa. Ég hef æft mjög vel og því tel ég, ef fram heldur sem horfir, að það eigi ekkert að vera því til fyrirstöðu að ég verði í toppæfingu þegar að næsta stóra verkefni kemur, sem eru leikirnir við Ítala í undankeppni HM í vor og síðan Ólympíuleikarnir. Auðvitað getur ýmislegt sett strik í reikninginn svo sem meiðsli og eins það að Guðmundur taki aðra leikmenn framyfir mig. Ég tel hins vegar að báðir aðilar séu á því að halda áfram, en vissulega er aldrei hægt að fullyrða um það. Guðmundur velur sitt landslið vegna undankeppni HM og Ólympíuleikanna í vor og þá verðum við að sjá til hvernig ástandið verður á mönnum. Kannski hef ég leikið minn síðasta landsleik, þá verður svo að vera en auðvitað þætti mér það slæmt. Ég vildi hætta á annan og betri hátt með landsliðinu."

Patrekur segir að þrátt fyrir að hann búi á Spáni og hafi þar af leiðandi verið aðeins utan skotlínunnar hér heima hafi hann ekki komist hjá því að verða var við harða gagnrýni á sig og aðra leikmenn liðsins. "Þegar vel hefur gengið hjá landsliðinu þá hefur mér og öðrum verið hælt á hvert reipi og stundum höfum við fengið meira hól en við verðskulduðum í samanburði við suma samherja okkar í liðinu. Þá er ekki óeðlilegt að ég, Ólafur og Dagur fáum stærri hluta af gagnrýninni þegar illa gengur. Menn verða líka að vera menn til þess að taka skítnum og ég færist ekki undan því, enda lærir maður einnig mikið af því að lenda í mótbyr. Þá kemur maður oft sterkari til baka og það tel ég að við getum gert að þessu sinni," segir Patrekur Jóhannesson, handknattleiksmaður hjá Bidasoa á Spáni.

Eftir Ívar Benediktsson