[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LÖGREGLAN í Austurríki tilkynnti í gær að 113 kg af heróíni hefðu fundist falin í rúmönskum flutningabíl sem var á leið til Frakklands. Er þetta mesta magn eiturlyfja, sem lagt hefur verið hald á í einu í Austurríki.
LÖGREGLAN í Austurríki tilkynnti í gær að 113 kg af heróíni hefðu fundist falin í rúmönskum flutningabíl sem var á leið til Frakklands. Er þetta mesta magn eiturlyfja, sem lagt hefur verið hald á í einu í Austurríki. Lögreglan fékk ábendingu frá lögreglunni í Þýskalandi og stöðvaði vörubílinn á hraðbraut á mánudag. Tveir Rúmenar, 28 og 52 ára, voru í bílnum en þeir sögðust ekki hafa vitað um fíkniefnið. Austurríska lögreglan segir að heróínið sé metið á um 56 milljónir evra eða um 5 milljarða króna í götusölu.

Föngum ekki sleppt?

TALSMENN bandaríska varnarmálaráðuneytisins hafa staðfest, að hugsanlega verði föngum í Guantanamo ekki sleppt, þótt þeir verði sýknaðir fyrir herrétti. Bandarísk yfirvöld réttlæta þessa stefnu með því, að fangarnir geti verið hættulegir áfram þótt engin sök verði fundin hjá þeim. Kom þetta fram á fréttavef BBC, breska ríkisútvarpsins.

Yfirvöld segja, að málið sé tvíþætt. Annars vegar sé föngunum haldið vegna þess, að þeir séu grunaðir um að vera óvinahermenn í yfirstandandi stríði, og hins vegar vegna þess, að sumir kunni að verða ákærðir fyrir stríðsglæpi eða önnur afbrot. Verði einhver fundinn sekur um stríðsglæpi verði hann að sitja af sér dóminn þótt öðrum yrði sleppt að hryðjuverkastríðinu loknu.

Mannfall í Nepal

MINNST 41 maður féll í hörðum átökum öryggislögreglumanna og uppreisnarmanna maóista í Nepal aðfaranótt miðvikudags, að sögn talsmanns hersins í gær. Sagði hann að um 2.000 vopnaðir uppreisnarmenn hefðu ráðist á borgina Bhojpur í austurhluta landsins. Þar eru aðalstöðvar héraðsstjórnar á svæðinu og var skorið á símalínur og reynt að ræna ríkisrekinn banka. Uppreisnarmenn náðu ekki að leggja borgina undir sig.

Afnema ferðabann

BANDARÍSK stjórnvöld hafa slakað verulega á refsiaðgerðum gegn Líbýu og fellt úr gildi tveggja áratuga gamalt bann við ferðum bandarískra borgara þangað.

Með þessu er Bandaríkjastjórn að launa Muammar Gaddafi, leiðtoga Líbýu, þá ákvörðun hans að hætta öllum áætlunum um smíði gereyðingarvopna og taka upp fullt samstarf við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. George W. Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti einnig, að bandarísk fyrirtæki, sem haft hefðu einhver ítök í Líbýu áður en refsiaðgerðirnar voru ákveðnar, mættu endurvekja þau viðskipti. Hann skoraði á Líbýustjórn að senda sendiherra til Washington.