Ungu stúlkurnar sem sjá um dansatriði á milli leikhluta í Stykkishólmi hafa gaman af því sem þær eru að gera og Björg Guðrún Einarsdóttir leyndi ekki ánægju sinni.
Ungu stúlkurnar sem sjá um dansatriði á milli leikhluta í Stykkishólmi hafa gaman af því sem þær eru að gera og Björg Guðrún Einarsdóttir leyndi ekki ánægju sinni. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
TINDASTÓLL og Njarðvík áttu samkvæmt öllu að berjast um fjórða sætið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í lokaumferð hennar í kvöld. En í gær úrskurðaði eftirlitsnefnd KKÍ að Tindastóll getur ekki endað ofar í deildinni en lið sem er með jafnmörg stig og þeir. Ástæðan er sú að fyrr í vetur braut Tindastóll reglur um launaþakið sem sett var á síðastliðið sumar og var liðinu refsað með þeim hætti að liðið var sektað.

Njarðvík er með 26 stig gegn 24 hjá Tindastóli en Sauðkrækingar unnu fyrri leik liðanna sem fram fór í Njarðvík. Það mun samt sem áður ekki skipta neinu máli þegar uppi er staðið. Verði liðin jöfn fær Njarðvík heimaleikjaréttinn ef liðin mætast í átta liða úrslitum.

Haukar eru með 24 stig en þeir geta ekki náð fjórða sætinu vegna óhagstæðrar útkomu í innbyrðis leikjum við Njarðvík. Tindastóll á það á hættu að falla niður í sjötta sæti verði liðið með jafn mörg stig og Haukar eftir lokaumferðina.

Að öðru leyti eru nokkuð hreinar línur í deildinni fyrir þessa síðustu umferð. Útséð er um að Snæfell er deildarmeistari, Grindavík í öðru sæti og Keflavík í því þriðja. Njarðvík hreppir 4. sætið, en Haukar gætu jafnframt náð 5. sætinu af Tindastóli. Síðan verða KR og Hamar í 7. og 8. sæti en þau eru jöfn að stigum og KR verður fyrir ofan ef staðan verður þannig eftir leikina annað kvöld.

ÍR og KFÍ eru í níunda og tíunda sæti og eru komin í sumarfrí eftir lokaumferðina, ásamt Breiðabliki og Þór úr Þorlákshöfn sem eru bæði fallin úr úrvalsdeildinni.

Í kvöld mætast Grindavík - Breiðablik, Haukar - Keflavík, KFÍ - Snæfell, KR - ÍR, Tindastóll - Njarðvík og Þór Þ. - Hamar.

Ef röð liðanna breytist ekkert, munu þessi lið leika saman í 8-liða úrslitunum:

Snæfell - Hamar

Grindavík - KR

Keflavík - Haukar

Njarðvík - Tindastóll

*Snæfell gæti einnig mætt KR og þá myndi Grindavík mæta Hamri.