Sveinn Aðalsteinsson
Sveinn Aðalsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forsendur fyrir því að hægt sé að bjóða upp á nám á háskólastigi eru rannsóknir.

SUMARDAGINN fyrsta 2003 tók gildi ný reglugerð fyrir Garðyrkjuskóla ríkisins. Með reglugerðinni fékk Garðyrkjuskólinn formlega rétt til að bjóða upp á nýtt nám á háskólastigi ásamt starfsmenntanámi á 6 námsbrautum. Síðustu misseri hefur verið í gangi undirbúningsvinna við skipulagningu þriggja nýrra háskólabrauta við skólann. Nám þetta er fyrirhugað á hausti komandi og um er að ræða hagnýtt háskólanám með vinnu. Boðið verður upp á þrjár námsbrautir garðyrkjutækni, skrúðgarðyrkjutækni og skógræktartækni, 30 eininga diplomanám með möguleika á framhaldi til BS-gráðu. Hér er um nýmæli að ræða, ekki síst á sviði háskólanáms í skógrækt.

Skógræktartækni

Forsendur fyrir því að hægt sé að bjóða upp á nám á háskólastigi eru rannsóknir. Garðyrkjuskólinn hefur stundað rannsóknir í garðyrkju og trjárækt í rúm 60 ár. Fyrirhugaður flutningur tilraunastöðvar skógræktar á Mógilsá á Garðyrkjuskólann rennir enn traustari stoðum undir þá rannsóknastarfsemi sem nú er stunduð við Garðyrkjuskólann. Nú þegar á sér stað víðtæk samvinna Mógilsár og Garðyrkjuskólans m.a. með uppbyggingu sameiginlegrar tilraunavinnustofu og sameiginlegra rannsóknaverkefna sem fara fram í nýju tilraunagróðurhúsi skólans.

Uppbygging námsins

Námið er 30 einingar (60 ECTS) og er skipulagt sem lotubundið fjarnám á þremur önnun. Að loknu námi í skógræktartækni skal nemandinn hafa góða faglega þekkingu á grunnskipulagi, ræktun og nýtingu skóga, og getað stjórnað uppbyggingu, ræktun og nýtingu einstakra skóga. Námið býr nemandann undir frekara nám í skógrækt, m.a. með þjálfun í sjálfstæðum og faglegum vinnubrögðum í þekkingaröflun.

Helstu námsgreinar eru aðferða- og upplýsingafræði, trjáplöntuþekking, skógmælingar, hagnýt jarðvegsfræði, skógarvistfræði, plöntulífeðlisfræði trjáa, áætlanagerð í skógrækt og skógræktaraðferðir. Við undirbúning námsins hefur verið leitað til ýmissa sérfræðinga, innan og utan skólans. Lögð er áhersla á hina faglegu þrískiptingu skógfræði þ.e. eiginlega skógrækt (silviculture), skógmælingar (forest mensuration) og skógræktaráætlanir (forest management).

Framtíðin

Ætla má að mikil eftirspurn sé eftir fólki með hagnýta tæknimenntun á þessu sviði. Helstu dæmi um starfsvettvang eftir útskrift er m.a. Skógrækt ríkisins, störf hjá landshlutabundnu skógræktarverkefnunum, sjálfstætt starfandi verktakar, ýmis sérfræðistörf auk annarra starfa í græna geiranum.

Unnið er að samstarfssamningum við aðra háskóla m.a. við Háskóla Ísland og Tækniháskóla Íslands þannig að nemendur geti flutt með sér áunnar einingar inn í annað nám t.d. líffræði eða rekstrarfræði.

Hingað til hefur einungis verið hægt að stunda nám sem þetta erlendis, við aðstæður sem eru um margt frábrugðnar íslenskum aðstæðum. Miðað við það fé sem áætlað er að leggja í nýskógrækt á næstu árum er það vissa skólans að hér sé verið að mæta töluverðri eftirspurn á sviði skógræktarnáms. Nánari upplýsingar má fá á skrifstofu skólans og heimasíðu: www.reykir.is

Sveinn Aðalsteinsson og Ólafur Melsted skrifa um skólamál

Sveinn er skólameistari Garðyrkjuskóla ríkisins og Ólafur er aðstoðarskólameistari.