Fjöldaútför var haldin í Karbala í gær vegna sjítanna sem féllu í ódæðum í borginni í fyrradag.
Fjöldaútför var haldin í Karbala í gær vegna sjítanna sem féllu í ódæðum í borginni í fyrradag. — AP
Í yfirlýsingu, sem eignuð er al-Qaeda, kemur fram að samtökin báru ekki ábyrgð á ódæðunum í Írak í fyrradag. Davíð Logi Sigurðsson, sem heimsótti Írak fyrir skemmstu, rýnir í stöðu mála í landinu.
ÞÚSUNDIR sjía-múslíma gengu í gær fylktu liði í gegnum Karbala, sem er helgasta borg þeirra, og hrópuðu slagorð gegn Bandaríkjamönnum annars vegar, og gegn "útlendum" hryðjuverkamönnum hins vegar. Reiði þeirra er mikil, ódæðin í Karbala og við Kazimiyah-moskuna í Bagdad í fyrradag, sem kostuðu hátt á annað hundrað manns lífið, áttu sér stað á helgasta degi ársins í dagatali sjía-múslíma, á þeim degi þegar þeir minnast þess er Hussein, barnabarn Múhameðs spámanns, dó píslarvættisdauða í Karbala fyrir 1.400 árum.

Þennan dag fengu sjítar í Írak ekki að halda hátíðlegan á meðan súnní-múslíminn Saddam Hussein réð ríkjum í landinu - hann óttaðist að slík hátíðarhöld efldu samstöðu sjíta í Írak sem aftur hefði getað orðið til að þeir gerðu uppreisn gegn stjórn hans - og því var um stórviðburð hjá þeim að ræða í fyrradag.

Zarqawi grunaður

Arabískt dagblað í London, Al-Quds, greindi í gær frá því að yfirlýsing hefði borist frá al-Qaeda-hryðjuverkasamtökunum þar sem þau neita allri ábyrgð á ódæðunum í fyrradag. Eykur þessi yfirlýsing á óvissuna um það hverjir voru að verki - þó að Jórdaníumaðurinn Abu Mussab al-Zarqawi, sem sagður er hafa tengsl við al-Qaeda, sé sterklega grunaður um að hafa skipulagt ódæðin.

"Ég held ekki að nokkur maður viti hver gerði þetta," segir fréttakonan Molly Bingham, sem búsett hefur verið í Bagdad undanfarið ár, í samtali við Morgunblaðið. "Hugsanlega var um erlenda aðila að ræða, einhverja aðra en al-Qaeda, það er til nóg af mönnum sem vilja hreinsa til í íslam og líta svo á að sjítar séu villutrúarmenn. En þessi ódæðisverk hefði ekki verið hægt að framkvæma án aðildar og aðstoðar einhverra Íraka," segir hún. "Útlendingur hefði ekki getað keypt þau vopn í Írak, sem var beitt í árásunum, nema með aðstoð heimamanns. Hversu stórt hlutverk einhverjir Írakar léku er hins vegar afar óljóst."

Kynt undir spennu

Þrjú hundruð manns biðu bana í hryðjuverkaárásum í Írak í febrúar-mánuði og tilræðin í fyrradag gefa mönnum ástæðu til að óttast að marsmánuður verði jafnvel enn blóðugri. Sumir fréttaskýrendur spá því raunar að spennan muni magnast í Írak, og enn fleiri eigi eftir að falla, í aðdraganda valdaskiptanna sem Bandaríkjamenn hafa boðað að muni eiga sér stað 1. júlí nk.

Spenna í samskiptum trúarhópanna og þjóðarbrotanna í Írak hefur raunar verið að magnast undanfarna mánuði, þetta er ekki í fyrsta skipti sem ráðist er sérstaklega á sjíta og í byrjun febrúar voru meira en 100 Kúrdar drepnir í árásum í borginni Erbil í Norður-Írak.

Er talið líklegt að markmið ódæðismanna í fyrradag, eins og í Erbil í febrúar og öðrum árásum í Írak undanfarin misseri, hafi verið að kynda enn frekar undir þessari spennu.

Hvað þeim gengur til með slíkum markmiðum er ekki fullkomlega ljóst - þó að auðvitað blasi við að atburðir eins og þessir grafa undan tilraunum Bandaríkjamanna til að innleiða vestræn gildi í þessum hluta heimsins, og að það sé áreiðanlega eitt af markmiðum ódæðismannanna að valda Bandaríkjunum skaða.

Sennilega eru ódæðismennirnir að reyna að hafa áhrif á hvað gerist í Írak eftir að Bandaríkjamenn framselja völd sín í hendur heimamönnum.

Viðbrögð Sistanis mikilvæg

Þannig má nefna þann möguleika að ódæðismennirnir, sem talið er að séu flestir súnnítar (hvort sem um er að ræða dreggjar Baath-flokks Saddams, íslamistann Zarqawi eða róttæka íslamista, alls ótengda Zarqawi og Baath-flokknum), vilji stuðla að því að súnnítar í landinu brýni járnin og komi í veg fyrir að ríkisstjórn er lyti forystu sjíta - sem eru mun fjölmennari en súnnítar í Írak - taki við er Bandaríkjamenn afsala sér völdum.

"Fyrst og síðast var þetta tækifæri til að ráðast á sjíta á stund þegar þeir voru samankomnir til að iðka trú sína - en klofningurinn í íslam veldur því að ýmsir eru ósáttir við það hvernig þeir iðka trú sína," segir Molly Bingham.

Hún segir miklu máli skipta hvernig Ayatollah Ali al-Sistani, helsti trúarleiðtogi sjíta í Írak, bregst við á næstu dögum. "Ef hann reiðist og segir sjítum að byrja að drepa alla súnníta sem þeir mæta, þá munu þeir gera það," segir hún.

Hins vegar séu vísbendingar um að sjítar muni ekki - að minnsta kosti ekki að svo stöddu - falla í þá gildru, sem ódæðismennirnir hafa lagt fyrir þá. "Ég held ekki að nokkur Íraki telji að borgarastríð muni bæta hag hans og sem stendur virðist ekki sem sjítar ætli að bíta á agnið. En aðeins tíminn mun leiða það í ljós," sagði Bingham í samtali við Morgunblaðið.

david@mbl.is