Arnþór Flosi Þórðarson fæddist í Gaulverjaskóla í Árnessýslu 4. mars 1949. Hann lést á heimili sínu á Seltjarnarnesi hinn 4. febrúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Seltjarnarneskirkju 13. febrúar.

Ástkær móðurbróðir minn, Arnþór Flosi, sem féll frá langt fyrir aldur fram fyrir mánuði, hefði orðið 55 ára í dag, 4. mars.

Flosi fæddist í Gaulverjabæjarskóla og var frumburður foreldra sinna, skólastjórahjónanna Guðfinnu og Þórðar, og var þeim afskaplega góður sonur.

Seinna ólst undirrituð upp á þessu sama heimili hjá þeim hjónum en þá var Flosi farinn að heiman til náms. Þá bar fljótt við að ef eitthvað var til skrafs og ráðagerða hjá afa og ömmu enduðu ekki ófáar setningar á: "Það er best að spyrja hann Flosa og vita hvað hann segir."

Það var mikið gæfuspor í lífi Flosa þegar að hann fór að vinna í Vestmannaeyjum og kynntist henni Inger. Þau eignuðust dótturina Hafrúnu og giftu sig skömmu síðar. Brúðkaupsdagur þeirra var mjög fallegur og mun undirrituð aldrei gleyma honum þrátt fyrir að hafa verið aðeins fimm ára. Hann einkenndist af hamingju, gleði, samhug og ást sem varð svo veganesti þeirra í hjónabandi alla tíð.

Flosi var mikill fjölskyldumaður og var umhugað um velferð hennar í einu sem öllu.

Eftir að afi og amma fluttu á Selfoss var Flosi eitt sumar að dytta að íbúð þeirra. Þá var örgeð unglingsáranna að mestu runnið af mér og ég kynntist Flosa upp á nýtt þarna á þessum vikum. Hann hafði svo þægilega nærveru og var gaman að tala við hann um allt því hann var svo fjölfróður og sérstaklega var gaman að tala um og spila tónlist fyrir hann. Hann fékk mig til að gera ýmsa hluti eins og að búa til mat fyrir sig og aðstoðarmann sem hann hafði. Ekki var kunnáttan mikil en hann fékk mig til að trúa hinu gagnstæða á mjög sannfærandi hátt. Hann fékk mig líka til að mála og sparsla og kenndi mér til verka sem aldrei gleymast því hann var mjög verklaginn og vandvirkur. Flosi var líka mikill húmoristi og gat verið stríðinn í góðri meiningu og hafði mjög gaman af að stríða undirritaðri.

Flosi hafði mikinn áhuga á því sem maður var að gera í lífi og starfi og samgladdist þegar gekk vel og tilsettum áföngum var náð. Eins sýndi hann samúð og styrk á erfiðari tímum. Flosi var gestrisinn og hafði gaman af því að bjóða í mat og veislur ýmist á heimili sínu eða í sumarbústaðnum. Það eru ófá kvöldin sem hafa farið í að sitja á Selbrautinni og gæða sér á kræsingum sem Flosi hafði matreitt, hlusta á góða tónlist og ræða um heima og geima ásamt góðum ráðum og leiðbeiningum sem voru ómissandi eftirréttur.

Það er einnig minnistæð bílferð sem við tvö fórum austur undir fjöll þegar Marta heitin frænka okkar var jarðsett þar. Flosi sagði mér sögur undan fjöllunum síðan hann var þar lítill strákur hjá ömmu sinni og frá staðháttum þar. Eyjafjöllin áttu stóran hluta í hjarta hans, það leyndi sér ekki í frásögnum hans.

Það var mikið áfall þegar Flosi greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum. Hann hélt þó áfram sinni stóísku ró en var staðráðinn í að berjast við þessa vá. Kona hans og börn voru sem klettar við hlið hans allan þennan tíma vona og vonbrigða.

Þessi barátta var erfið og sársaukafull og hafði váin yfirhöndina á endanum. Sorgin var ólýsanleg og missirinn mikill hjá fjölskyldu og ástvinum, sérstaklega hjá ykkur, elsku Inger, Hafrún, Atli og Hjördís Inga.

Það voru forréttindi að eiga frænda eins og Flosa því hann var mikill öðlingur, hæfileikaríkur kennari, góður vinur, sonur, bróðir, góður eiginmaður og faðir. Ef það er lagt upp eins og margir trúa að líf þetta sem er lifað hér sé nokkurs konar prófraun þá er víst að Flosi kveður þetta jarðlíf með fyrstu einkunn í farteskinu. Hvíl í friði, kæri frændi.

Margrét Auður Jóhannesdóttir.