Sigríður Björnsdóttir frá Ormsstöðum í Eiðaþinghá fæddist 19. september 1906. Hún andaðist 10. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðfinna Jónsdóttir og Björn Ólafsson bóndi að Ormsstöðum og síðan Gilsárteigi í Eiðaþinghá. Bræður hennar voru: Jón, dó ungur, Gunnþór, látinn, og Sigtryggur, látinn.

Sigríður flutti til Reykjavíkur um tvítugt þar sem hún vann ýmis störf. Hún giftist 22. okt. 1938 Stefáni Tómassyni, f. 4.3. 1891, d. 19.2. 1969. Með Stefáni eignaðist hún eina dóttur, Oktavíu Erlu, f. 30.3. 1938, en fyrir átti Stefán ellefu börn. Börn Oktavíu eru: Sigríður Andradóttir, f. 1957, Stefán Jóhann Andrason, f. 1959, d. 2002, og Björn Fjalar Sigurðsson, f. 1965.

Útför Sigríðar fór fram í kyrrþey.

Kynslóðir koma,

kynslóðir fara,

allar sömu ævigöng.

(Matthías Jochumsson.)

Þessi orð hafa löngum lýst á kveðjustundum á Íslandi og komu mér í huga þegar ég fregnaði andlát Sigríðar Björnsdóttur; konu sem faðir minn nefndi ætíð af miklum hlýhug og kallaði stjúpu sína, konu sem var fjölskylduvinur á bernskuheimili mínu og ekki síður í vinfengi við móður mína en föður. Heimili hennar var sjálfsagður áningarstaður "fyrir sunnan" í þau fáu skipti sem einhver úr minni fjölskyldu fór svo langt frá Norðurlandinu og þó ég kynntist eingöngu gestrisni hennar í Kópavoginum þar sem hún hélt heimili með Oktavíu dóttur sinni og frænku minni, hafði ég heyrt óteljandi sögur frá Laugaveginum þar sem hún hafði búið um árabil með Stefáni afa mínum. Pabbi hafði átt hjá þeim bæði lengri og skemmri dvalir í Reykjavíkurlífi sínu sem ungur maður og átti alltaf víst athvarf á Laugaveginum þegar hann var í skemmtiferðum frá búfræðináminu á Hvanneyri. Miklum ljóma stafaði af Laugavegssögunum hans pabba; af bralli og uppátækjum hans og bræðra hans og samverustundunum með afa og Sigríði; af hinu framandi umhverfi borgarlífsins, glæsibyggingum, skemmtistöðum og lystigörðum.

En hver var þessi kona, stjúpan hans pabba míns? Svo sannarlega af aldamótakynslóðinni enda fædd í byrjun síðustu aldar og lifði tímana tvenna. Hún fæddist í torfbæ í Eiðaþinghá en yfirgaf heimasveitina sína kornung að aldri til að sækja sér menntun sem þá hefur væntanlega verið fátítt meðal sveitastúlkna á Austurlandi. Hún lét ekki þar við sitja, heldur var hún um tvítugt búin að ljúka klæðskeranáminu á Seyðisfirði og komin alla leið til Reykjavíkur! Þar var hún í hópi sjálfstæðra sveitastúlkna sem voru komnar á mölina; til að vinna fyrir sér sjálfar, ráða lífi sínu og örlögum og búa við aðstæður og umhverfi sem þær hafði ekki einu sinni getað dreymt um í sveitinni heima. Það er ekki að undra að henni hafi verið tíðrætt um þennan tíma og rifjað upp allar gleðistundirnar í borginni; skemmtiferðirnar og dansleikina með kurteisum og stimamjúkum læknakandídötum - og Hótel Borg var staðurinn hennar meðan jafnöldrurnar í sveitinni biðu árið um kring eftir réttarballinu. Hún var því löngu veraldarvön og glæsileg heimsdama þegar miðaldra sveitamaður norðan úr landi flutti til Reykjavíkur; í leit að gleymsku eða nýrri tilveru - á flótta undan harmi lífs síns eftir að hafa staðið yfir moldum eiginkonu sinnar sem andaðist úr berklum frá 11 ungum börnum? Þessu verður aldrei svarað en svo mikið er víst að þau felldu hugi saman og með Sigríði tókst afa mínum að endurbyggja líf sitt á ný eftir það heimshrun sem veikindi og andlát Oktavíu ömmu minnar var. Þarna sýndi Sigríður sama kjark og áræði og hún gerði þegar hún kvaddi heimasveitina forðum; hún lét hvorki 17 ára aldursmun né 11 börn stöðva sig frá því að giftast afa og stofna heimili með honum!

Auðvitað var líf þeirra enginn dans á rósum fremur en annarra alþýðufjölskyldna á þeim tíma. Hann vann hörðum höndum að framfærslunni og hún sinnti heimilinu; saumaði vitaskuld allt á fjölskylduna, meira að segja jakkafötin á eiginmanninn, heklaði af einstöku listfengi, bakaði, eldaði, þreif og sinnti öðru húshaldi á stað sem líktist meira hóteli en heimili. Pabbi og systkini hans mörg dvöldu þar löngum og allur frændgarður Sigríðar að austan og Stefáns að norðan gisti ávallt hjá þeim í borgarerindum. Hjá þeim voru allir velkomnir því þar sem er hjartarúm, er einnig húsrúm. Þrátt fyrir lífsbaráttuna tókst þeim þó einnig að njóta borgarlífsins saman; á hverjum sunnudegi var prúðbúist í sparikápu og frakka, allt saumað af frúnni, og spásserað niður Laugaveginn til að skoða í búðarglugga og endað á Hressó með köku og kaffi. Pabbi minntist löngum gönguferðar með þeim þegar hann kom nýútskrifaður búfræðikandídat með húfuna á kollinum og Sigríður myndaði hann í bak og fyrir við nýbyggingu Landspítalans. Listsýningar, leikhús, skemmtiferðir út fyrir borgina og heimsóknir til góðra vina voru líka hluti af lífinu því að bæði voru þau afar félagslynd og glaðsinna. Sagan segir þó að Sigríður hafi aflagt dans og annað sem fylgdi næturskemmtunum eftir að hún giftist ... en afi var gleðimaður fram í andlátið!

Sigríður og Stefán áttu farsæla sambúð um þriggja áratuga skeið eða þar til hann lést 1969 en eftir það bjó Sigríður hjá Oktavíu einkadóttur sinni og börnum hennar. Lífsgangan varð löng og hún hefur kvatt sátt og södd lífdaga hátt á tíræðisaldri - í veröld sem um fátt minnir á þá "veröld sem var". Við þökkum henni samfylgdina og sendum Oktavíu frænku og fjölskyldu hennar innilegustu samúðarkveðjur.

Margrét Pála Ólafsdóttir.