Camilla Soffía Guðmundsdóttir Ragnars fæddist á Akureyri 10. mars 1912. Hún lést á Borgarspítalanum 23. febrúar síðastliðinn eftir tveggja mánaða legu. Foreldrar hennar voru hjónin Guðlaug Ingibjörg Einarsdóttir og Guðmundur Jóhannesson, kaupmaður á Eskifirði. Systkini Camillu eru: Guðrún, sem er á lífi, Ásthildur, Jóhanna, Margrét og Jóhannes sem látin eru. Camilla ólst upp á Eskifirði fram á unglingsár en fluttist þá til Reykjavíkur.

Camilla giftist 23. júní 1934 Jóni Ásmundssyni Johnsen Ragnars stýrimanni, f. 26. október 1910, d. 26. desember 1994. Þau eignuðust þrjú börn. Þau eru: Margrét, f. 18. janúar 1936, Guðmundur Örn, f. 27. desember 1938, og Camilla, f. 30. maí 1944. Maki Margrétar er Guðmundur Heimir Skúlason, f. 5. maí 1934, þeirra börn Heimir, f. 25. maí 1954, Camilla Olga, f. 26. júní 1956, Ellen Sandr, f. 21. nóvember 1957, Belinda, f. 10. febrúar 1959, og Davíð Örn, f. 16. maí 1965. Sonur Guðmundar Arnar og Sigrúnar Ásdísar Pálmadóttur, f. 29. apríl 1939, d. 6. september 1980, er Pálmi, f. 20. febrúar 1958. Dóttir Guðmundar Arnar og Drífu Helgadóttur, f. 19. mars 1948 (þau skildu) er Elísabet, f. 7. júlí 1968. Maki Camillu er Leifur Örn Dawson, f. 22. nóvember 1943. Börn þeirra eru Leifur Örn, f. 14. febrúar 1967, og Guðrún Margrét, f. 18. janúar 1969.

Útför Camillu fór fram í kyrrþey hinn 3. mars að ósk hinnar látnu.

Nú ertu farin, elsku amma mín. Hvað ég á nú eftir að sakna þín. Það verður tómlegt að koma heim eftir langt og þreytandi flug og engin amma í Gnoðarvogi til að taka á móti manni. Ég hlakkaði svo til að geta komið heim í sumar til að sjá þig. Krakkana mína langaði svo að sjá langömmu sína aftur en svona er nú lífið.

Það er svo margt sem ég hugsa um, hvað þú gerðir fyrir mig, amma mín. Kenndir mér dönsku með því að lesa Andrésarandarblöðin og þýða þau yfir á íslensku. Það var svo gaman að hlusta á þig lesa þau. Þú passaðir okkur líka og varst alltaf heima þegar við komum úr skólanum. Það var svo gott að koma heim og vita að þú værir þar. Það má nú ekki gleyma sunnudögunum þegar við komum í heimsókn. Fyrst var farið til Diddu ömmu og svo var farið til þín og Jóns afa. Þar horfum við á "Húsið á sléttunni" þegar sá þáttur var í sjónvarpinu. Það var hlegið og grátið yfir þeim þætti. Þú varst svo yndisleg manneskja og alltaf til í að hlusta á mann. Þótt þú værir nú ekki há í lofti, þá var sko sannarlega mikill kraftur og lífsvilji hjá þér. Þú fékkst tvisvar berkla og lifðir það af. Þú áttir nú oft ekki auðvelt líf, en varst alltaf hress og kát og svo natin við allt það sem þú tókst þér fyrir hendur. Þegar ég var að hrósa þér sagðir þú oft við mig að þú ættir nú ekki allt þetta hrós skilið, en þú áttir nú það og meira til. Þín verður sárt saknað af öllum, elsku amma mín. Ég þakka fyrir að hafa getað haft þig í öll þessi ár og að börnin mín fengu að kynnast langömmu sinni. Verst var að vera flutt til Bandaríkjanna og geta ekki verið eins mikið með þér. Alltaf var gaman að tala við þig í síma.

Elsku amma mín, það væri hægt að skrifa heila bók um þig og þitt líf. Ég mun sakna þín, amma mín. Ég kveð þig eins og við kvöddumst alltaf "I love you always". Læt bænina fylgja með sem þú kenndir mér sem krakka:

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virzt mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson.)

Guðrún Margrét Leifsdóttir, Adam Jarman og börn.

Horfin er úr þessari jarðvist Camilla Soffía Guðmundsdóttir Ragnars. Hún lést í hárri elli á Landspítalanum í Fossvogi eftir stutta legu, hvíldinni trúlega fegin. Andlát hennar var hægt og hljótt eins og hennar persóna hafði alla tíð einkennst af.

Camilla var lágvaxin, fíngerð og lagleg kona. Hún fæddist fyrir tæpri öld og var elst af kaupmannsdætrunum frá Eskifirði og sú sem þær yngri litu alltaf upp til. Hún var alltaf svo hæglát og yfirveguð og hafði alltaf nægan tíma. Hún virtist búa yfir einhverri innri ró, sem eflaust hefur hjálpað henni á álagstímum.

Hennar líf var ekki alltaf dans á rósum því hún tókst á við margs konar erfiðleika og veikindi í sínu lífi, en ekkert virtist geta bugað hana, hún stóð alltaf keik eftir áföllin. Tvisvar þurfti hún að dveljast langdvölum á Vífilsstöðum vegna berklaveiki. Fjarri heimili og börnum, einangruð frá fjölskyldunni, sem hlýtur að hafa verið henni mikil raun.

Hún var líka sjómannskonan, sem ein bar ábyrgð meðan eiginmaðurinn var til sjós, en alla þessa erfiðleika sigldi hún í gegnum af æðruleysi og ósérhlífni.

Hennar heimili var alltaf opið þeim sem þangað vildu leita og alltaf var pláss fyrir einn til viðbótar. Hún var mikil barnakona, hafði mikla gleði af að hafa hjá sér barnabörnin og barnabarnabörnin og naut þess að fylgjast með fjölskyldu sinni stækka. Jafnvel þótt mörg þeirra byggju erlendis þá glöddu hana símtöl, bréf og myndir af ættingjunum og hafði hún gaman af að sýna þær gestum.

Milli hennar og Margrétar systur hennar var eitt ár í aldri en mjög sterkur tilfinningastrengur alla tíð. Þær lögðust inn á Landspítala sama daginn í desember og fylgjast nú að yfir móðuna miklu með tveggja mánaða millibili.

Í æsku minni var hún mér sem önnur móðir, hennar faðmur var mér alltaf opinn og mínum börnum gleymdi hún aldrei á jólum og afmælum, þrátt fyrir sína stóru fjölskyldu.

Elskulega móðursystir, far þú í friði. Minningin um þig mun alltaf lifa í mínu hjarta.

Guðlaug Margrét Jónsdóttir.