Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Þrátt fyrir fákeppni hér á landi, hefur úrræðum fyrir geðsjúka utan stofnana fjölgað.

HUGARAFL er hópur fólks sem átt hefur við geðsjúkdóma að stríða, en er í bata og starfar nú á vegum iðjuþjálfunar í heilsugæslunni. Þetta er tilraunaverkefni til tveggja ára sem Tryggingastofnun ríkisins í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið hefur sett á laggirnar til að styrkja heilsugæsluna. Dæmi um verkefnaval er útgáfa fræðsluefnis, tenglaþjónusta við geðsjúka, fyrirlestrar, námskeið, gæðaeftirlit og rannsóknir.

Íslendingar eru ekki fyrsta þjóðin sem farið hefur í gegnum þrengingar á heilbrigðissviði. Í tengslum við geðsjúkdóma hafa víða erlendis risið upp hagsmunahópar sem vilja sjá áherslubreytingar í sínum málaflokki. Þannig geta aðsteðjandi þrengingar nýst ágætlega við endurskoðun mála. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) leggur áherslu á að fjölga úrræðun fyrir geðsjúka úti í samfélaginu, utan stofnana, og í samvinnu við sjúklingana sjálfa þar sem markmiðið er aukin þátttaka í samfélaginu. Alþjóðabankinn lítur svo á að fjárfesting í mannauði og félagsauði skili mestum hagnaði til samfélagsins. Að vera virkur, eiga samstarf við aðra og hafa áhrif og hlutverk, eru allt þættir heilbrigðis og lífsgæða. Ef manneskjan upplifir tilgangs- og stefnuleysi og nánasta umhverfi hvetur ekki til þátttöku í iðju sem leiðir af sér jákvæða lífsreynslu, visnar viðkomandi smám saman og deyr. Iðjusvipting verður í þeim hópum sem hafa takmarkað val á þátttöku í iðju, eins og gerist hjá fötluðum, föngum og útlendingum. Iðjusvipting er raunveruleiki margra, einkum þeirra sem kljást við fátækt, ójafnræði eða króníska sjúkdóma. Þegar þrengir að eins og nú í heilbrigðiskerfinu er mikil hætta á að meirihluti fjármagnsins fari í "gera við" einstaklinga með ýmsum læknisverkum eða að "treina" líf þeirra. Einstaklingar sem á einhvern hátt eiga erfitt með að taka þátt í iðju sem þá langar eða þurfa að sinna til að öðlast tilgang hafa ekki verið ofarlega í forgangsröðinni. Afar mikilvægt er að þeir sem miðla fjármagninu geri sér grein fyrir því að heilbrigði felst ekki eingöngu í hefðbundinni lækningu eða svokallaðri bráðaþjónustu. Huga verður að þeim einstaklingum sem læknavísindin hafa svo sannarlega bjargað þannig að líf þeirra verði þess virði að lifa því.

Fjármagni er ekki bara misskipt í heilbrigiðiskerfinu heldur í samfélaginu öllu. Bilið hefur breikkað milli þeirra sem hafa mikið milli handanna og þeirra sem lítið hafa. Hlutverkum í samfélaginu er líka misskipt og þar breikkar bilið einnig milli einstaklinga með mörg hlutverk og eru eftirsóttir í starfi og þeirra sem hafa fá eða engin hlutverk og er hafnað af atvinnulífinu. Atvinnuvegirnir eru líka að breytast í greinar sem eru ýmist of fjölþættar eða of einhæfar. Allir þessir þættir hafa neikvæð áhrif á heilsu, einnig takmarkaður aðgangur að þátttöku í verkefnum. Að vera sviptur tækifærum til þátttöku eyðileggur sjálfsmyndina og brýtur niður mótstöðuafl líkamans. Störf okkar, sú iðja sem við stundum, og hlutverk okkar í lífinu móta sjálfsmyndina. Þetta hefur áhrif á hæfileikann til að ráða við streitu og aðlagast kröfum daglegs lífs og er þar með undirstaða heilbrigðis. Jafnræði til þátttöku í samfélaginu er því heilbrigðismál og hápólitískt. Þegar unnið er með heilbrigði þarf að vinna með þætti eins og jafnræði, sjálfstraust, hlutverk og þátttöku.

Heilbrigðiskerfið þenst út, kostnaður eykst, sérfræðingum fjölgar, notkun lyfja eykst og lyfjakostnaður hækkar. Ætla mætti að árangur væri í samræmi við þetta, en samkvæmt niðurstöðum úr nýlegri rannsókn sem þeir félagar Tómas Helgason, Helgi Tómasson og Tómas Zöega birtu í British Journal of Psychiatry virðist ekki öll þessi þekking á geðheilbrigðismálum hafa skilað sér hér á þann hátt sem menn vilja, eins og fækkun öryrkja, göngudeildarsjúklinga, innlagna á geðdeildir og sjálfsvíga. Það er skiljanlegt að skattborgarar og valdhafar sem beina þurfa fjármagninu á rétta staði, klóri sér í hausnum og spyrji hvort við séum á réttri braut. Hvað viljum við fá út úr kerfinu? Fyrir hvað erum tilbúin að borga úr sameiginlegum sjóðum? Svo verður líka að skilgreina í hverju árangur felist. Ætti að mæla árangur í betri líðan, auknu sjálfstrausti, aukinni færni í daglegu lífi eða aukinni þátttöku í samfélaginu almennt? Eftir sameiningu stóru spítalanna hefur samkeppni nánast horfið. Núna hafa geðsjúkir sem og sérhæft starfsfólk ekkert val. Þú verður að velja Landspítala - háskólasjúkrahús hvort sem þér líkar betur eða verr. Þegar að þrengir virðast einu sýnilegu bjargráðin þau að leita ásjár fjölmiðla og búa til góðar fyrirsagnir sem selja, og hræða valdhafa til undirgefni. Ný stétt hefur allt í einu risið og fengið mikilvægt hlutverk - fjölmiðlafulltrúar.

Þrátt fyrir fákeppni hér á landi, hefur úrræðum fyrir geðsjúka utan stofnana fjölgað. Margir hafa lagt málefninu lið, svo sem stofnanir, stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar og einkafyrirtæki, auk ýmissa átaksverkefna á vegum hins opinbera. Aukin úrræði ásamt öflugri fræðslu um geðsjúkdóma hafa haft það í för með sér að hópur fólks hér á landi sem náð hefur bata eða er á batavegi vill hafa áhrif á þjónustuna við geðsjúka. Tilkoma Hugarafls hefði aldrei orðið að veruleika ef ekki hefði komið til fjöldi fólks sem lagt hefur hönd á plóg og minnkað fordóma. Án þeirra hefði þessi litli vaxtarbroddur Hugarafl sem starfar í heilsugælsunni aldrei náð að vaxa. Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið hefur einnig hvatt hópinn til dáða með styrkjum til að halda áfram að þróa hugmyndir sínar.

Markmið Hugarafls er að setja af stað atvinnurekstur í hringiðu mannslífins, fyrir þá sem einhverra hluta vegna hafa dottið út úr vinnu eða skóla, en vilja vera virkir, fá hlutverk, hafa áhrif og taka þátt í verðmætasköpun. Starfsemin mun byggjast á valdveitingu og sjálfseflingu empowerment þar sem jafnræði ríkir milli fagfólks og notenda þjónustunnar.

Hugarafl hvetur alla sem áhuga hafa á málefninu að mæta á kynningarfund og fræðast um hugmyndir hópsins. Hópurinn vill fá sem flest sjónarmið frá öðru fagfólki, stjórnmálamönnum, fjárfestum, aðstandendum og almenningi. Hópurinn trúir því að með samvinnu ólíkra aðila; fjárfesta, fagfólks, valdhafa og virkri þátttöku þeirra sem hafa reynslu af bata megi byggja upp þjónustu sem skilar auknum mannauði. Hagur samfélagsins er í húfi og þú kæri samborgari ert hluti af því. Ég vil því eggja alla til þátttöku með því að mæta laugardaginn 6. mars á Kaffi Reykjavík kl. 13:00.

Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um félagasamtökin Hugarafl

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LHS og lektor við HA.