7. mars 2004 | Tímarit Morgunblaðsins | 306 orð | 1 mynd

Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir

Valdi iðnaðarverkfræði og fékk draumastarfið

— Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson
Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir er fædd árið 1978. Hún bjó fyrstu árin í Hafnarfirði en flutti svo til Reykjavíkur og gekk í Ísaksskóla. Hún bjó í Álfheimum, var í Langholtsskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1998.
Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir er fædd árið 1978. Hún bjó fyrstu árin í Hafnarfirði en flutti svo til Reykjavíkur og gekk í Ísaksskóla. Hún bjó í Álfheimum, var í Langholtsskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1998.

"Sumarið 1998 gaf ég, ásamt öðrum, út blað um ungt fólk í samstarfi við ÍTR, en um haustið fór ég að vinna í Iðnó hjá Leikfélagi Íslands," segir Sigurlína en þann vetur var t.d. Rommí sýnt og Þjónn í súpunni.

Vorið 1999 langaði hana til að breyta til og fór með vinkonum sínum í tveggja og hálfs mánaðar ferð til Taílands og Kína. "Það var meiriháttar að vera í Taílandi, en ég fékk menningarsjokk þegar við komum til Kína, því viðbrigðin voru svo mikil, ískalt, fólkið lokaðra og erfitt að skilja og gera sig skiljanlegan," segir hún en bætir við að hún hafi öðlast dýrmæta reynslu í báðum þessum merkilegu löndum.

Áður en Sigurlína fór í ferðalagið hafði hún tekið áhugasviðspróf. Hún fékk þó ekki niðurstöðurnar fyrr en hún hafði þegar skráð sig í vélaverkfræði við HÍ. Niðurstaðan úr prófinu var að sá starfsvettvangur sem líklega félli henni best væri: vélaverkfræði.

"Ég var eitt misseri í náminu sem skiptinemi í DTU í Kaupmannahöfn og vann svo á Kastrup-flugvelli um sumarið," segir hún og að með náminu hafi hún einnig starfað hjá Reykjavik.com og gert leikskrár fyrir Iðnó.

Sigurlína breytti til innan verkfræðinnar og útskrifaðist í október 2002 með BS-gráðu í iðnaðarverkfræði. "Ég fékk draumavinnuna því ég var ráðin verkefnastjóri í þróunardeild lyfjaforma hjá Delta," segir hún og að skömmu síðar hafi Pharmaco keypt Delta en hún gegnt sömu stöðu áfram. Starf hennar er þvert á aðrar deildir, þannig að hún vinnur að mörgu og með mörgum. Hún gat ekki hugsað sér að fórna vinnunni fyrir meistaranám í iðnaðarverkfræði þannig að hún bætti 40% námi við vinnuna og tekur tvö námskeið á misseri. guhe@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.