Sigríður Halldórsdóttir, forstöðumaður heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri.
Sigríður Halldórsdóttir, forstöðumaður heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri.
HEILBRIGÐISDEILD Háskólans á Akureyri býður upp á þverfaglegt nám til meistaragráðu í heilbrigðisvísindum. Umsóknarfrestur um námið og einstök námskeið innan þess er til 15. mars nk.

HEILBRIGÐISDEILD Háskólans á Akureyri býður upp á þverfaglegt nám til meistaragráðu í heilbrigðisvísindum. Umsóknarfrestur um námið og einstök námskeið innan þess er til 15. mars nk. Námið er 60 einingar, sex 5 eininga námskeið og 30 eininga meistararitgerð. Hægt er að fá staðfestingu á því að hafa lokið 30 einingum í námskeiðum (diploma) og skrifa ekki meistararitgerð. Sigríður Halldórsdóttir, forstöðumaður framhaldsnámsins við deildina, sagði að margir þverfaglegir hópar hefðu í vetur verið að þróa sex námskeið á sviði heilbrigðisvísinda. Þessi námskeið eru: "Heilbrigði og heilbrigðisþjónusta: Staða, stefnur og straumar". "Að eldast í íslensku samfélagi". "Endurhæfing, efling og lífsgæði" Krabbamein, alnæmi og líknandi meðferð". "Langvinnir sjúkdómar og lífsglíman" og "Fötlun og samfélag". Nemendur velja fjögur af þessum námskeiðum og taka síðan tvö aðferðafræðinámskeið, í eigindlegum og megindlegum rannsóknum og rannsóknaraðferðum. Í sumum starfshópum voru starfandi allt að fimm sérfræðingar auk þriggja sérfræðilegra ráðgjafa þannig að allt að átta manns tóku þátt í að skipuleggja hvert námskeið. "Við leggjum mikla áherslu á þessa þverfaglegu nálgun enda erum við heilbrigðisdeild og viljum að allar heilbrigðisstéttir finni sig velkomnar innan okkar dyra," sagði Sigríður.

Tvö námskeið á haustmisseri

Sérstaklega þarf að sækja um að komast inn í meistaranámið og þarf þá m.a. 1. einkunn á háskólaprófi, en meistaranámskeiðin sjálf eru öllu háskólafólki opin meðan fjöldamörk leyfa. Í haust verða tvö námskeið í boði, námskeið í eigindlegum rannsóknaraðferðum og námskeiðið "Heilbrigði og heilbrigðisþjónustan: Staða, stefna og straumar."

"Við viljum vanda vel til meistaranámskeiðanna en hverju námskeiði stýrir þverfaglegur hópur þriggja sérfræðinga. Þá leggjum við áherslu á að hafa góð tengsl við aðila sem eru í lykilstöðum innan heilbrigðisþjónustunnar og innan hins íslenska samfélags og tengja þá kennslunni." Engin próf eru í umræddum námskeiðum en þeirra í stað eru hagnýt verkefni sem ætluð eru til að kenna fólki fagleg vinnubrögð. Eigindlega ráðstefnan sem verður hluti af eigindlega námskeiðinu í haust verður samræðuráðstefna þar sem áhersla er á umræður um aðferðafræði. "Prófessor Steiner Kvale verður aðalfyrirlesari ráðstefnunnar. Hann er mörgum að góðu kunnur hér á landi, enda afkastamikill fræðimaður, og finnst mér frábært að geta boðið nemendum okkar upp á það besta í umræðu um aðferðafræði og vinnubrögð," ítrekar Sigríður.

Hún nefndi að frá árinu 1997 hefði háskólinn boðið meistaranám í hjúkrunarfræði í tengslum við Royal College of Nursing/Manchester-háskóla og hefði það gengið einstaklega vel. "Við nýtum okkur að sjálfsögðu margt sem við höfum lært af Bretum enda eru þeir mjög framarlega í menntamálum í heiminum. Þeir eru í senn hagsýnir og framsýnir, en ekki síst mjög alþjóðlegir í hugsun í besta skilningi þess orðs. Ég er mikill aðdáandi Breta eftir að hafa starfað með þeim í meir en sjö ár og hefði ekki viljað missa af þessu gefandi samstarfi. Það sem við erum að gera núna er hins vegar að nýta okkur að innan Háskólans á Akureyri vinnur fólk af mismunandi fræðigreinum hlið við hlið og stöðugt er að aukast rannsóknarsamstarf milli ólíkra fræðasviða og er ég ekki í vafa um að slíkt vinnulag mun aukast í framtíðinni. Segja má að styrkur okkar við Háskólann á Akureyri sé m.a. að við erum svo nálægt hvert öðru. Það er í þessu skemmtilega spjalli á sameiginlegum kaffistofum og matstofum sem við uppgötvum sameiginleg áhugasvið innan fræðasviða sem ganga jafnvel þvert á alla deildarmúra.

Þverfagleg nálgun

Þorsteinn Gunnarsson rektor hefur frá upphafi ferils síns við háskólann verið talsmaður samstarfs þvert á deildarmúra og tel ég að sú áhersla hans hafi verið að skila sér á einstaklega skapandi máta í rannsóknarsamstarfi innan háskólans og í menntunaráherslum. Þverfaglegt meistaranám í heilbrigðisvísindum er einmitt í þeim anda. Ég var sjálf í doktorsnámi við Linköping-háskóla í Svíþjóð þar sem nemendur voru frá ólíkum fræðasviðum og fannst mér það auka víðsýni og í ljósi þeirrar reynslu er ég sannfærð um mikilvægi þess að auka þverfaglega nálgun í viðleitni okkar og verkefnum," sagði Sigríður.

Allar upplýsingar um námið er að finna á slóð Háskólans á Akureyri, www.unak.is