— Morgunblaðið RAX
SIKORSKI-þyrla Varnarliðsins hefur sig á loft af Skarðsfjöru á Meðallandssandi í gær, til að flytja 1.840 kg þungt kefli með 1.900 metra langri dráttartaug út í norska dráttarbátinn Normand Mariner, sem kom til landsins í gær.

SIKORSKI-þyrla Varnarliðsins hefur sig á loft af Skarðsfjöru á Meðallandssandi í gær, til að flytja 1.840 kg þungt kefli með 1.900 metra langri dráttartaug út í norska dráttarbátinn Normand Mariner, sem kom til landsins í gær. Í dag mun þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF fljúga afturábak með taugina yfir í Baldvin Þorsteinsson EA, en það hefur aldrei verið reynt áður og segir Einar Valsson, stýrimaður á TF-SIF, það vera vandasamt verk. Til stendur að reyna að draga Baldvin á flot í kvöld, verði veður sæmilegt.

Í gær reyndi dráttarskipið að nálgast Baldvin, en komst næst 1,3 sjómílur frá skipinu. TF-SIF flutti tíu skipverja á Baldvini út í skipið í gær og hófu þeir frekari undirbúning björgunaraðgerða.

Hávaðarok var á þessu svæði í gær og varð mönnum um og ó við að sjá keflið með dráttartauginni sveiflast fram og til baka, þegar flogið var með það út í norska skipið.

Björgunarmanna bíður vandasamt verkefni í dag og er ljóst að mikill áfangi næst í björgunarferlinu ef tekst að koma tauginni í Baldvin í dag. Þá fyrst kemur í ljós hvort hið tröllaukna, nærri 30 þúsund hestafla dráttarskip nær að draga Baldvin á flot.

Ljóst er að TF-LÍF, stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, mun ekki geta tekið þátt í björgunaraðgerðum í dag, en í gær kom í ljós að þyrlan væri biluð og var þá beðið um aðstoð varnarliðsins í Keflavík. Gírkassi þyrlunnar hefur verið sendur til Noregs til viðgerðar og er búist við að viðgerðin taki fjóra daga. Gírkassinn kostar um 37-38 milljónir króna, en ekki er ljóst hvað viðgerðin mun kosta.4