Snickersterta Möndlubotnar 350 g eggjahvítur 125 g sykur 75 g hveiti 200 g möndlur/heslihnetur 250 g flórsykur Þeytið eggjahvítur og 125 g sykur.
Snickersterta

Möndlubotnar

350 g eggjahvítur

125 g sykur

75 g hveiti

200 g möndlur/heslihnetur

250 g flórsykur

Þeytið eggjahvítur og 125 g sykur. Hakkið möndlurnar fínt og sigtið flórsykurinn og hveitið, blandið þurrefnunum saman við og blandið varlega út í þeyttu eggjahvíturnar með sleif. Skiptið deiginu á tvær bökunarplötur og bakið við 180-190°C í 7-10 mín. (ljósbrúnir).

Snickers-frómas

2 egg

100 g sykur

2 pelar rjómi

½ dl sterkt kaffi

6 blöð matarlím

100 g salthnetur

Matarlímsblöðin sett í kalt vatn, léttþeytið rjómann.

Þeytið egg og sykur, bræðið matarlímsblöðin í heitu kaffinu og kælið áður en sett er út í rjómann og hellið í mjórri bunu í eggjaþeytinguna og blandið varlega út í ásamt salthnetunum.

Stingið út 3 möndlubotna með 22-24 cm hring, smyrjið smávegis karamellukremi á botnana og setjið frómasinn á milli botnana og frystið.

Búið til mjólkursúkkulaðihjúp: sjóðið 100 g rjóma og hellið yfir 170 g mjólkursúkkulaði og hrærið og hellið yfir kökuna og skreytið með salthnetum.

Kransakökuhorn

1 kg kransamassi

500 g sykur

3-4 eggjahvítur (80 g)

Setjið sykur og eggjahvítur í heitt vatnsbað. Þegar blandan er orðin vel volg þá blandið henni saman við massann og hrærið í stutta stund í hrærivél. Gott er að láta deigið standa í sólarhring í kæli.

Vigtið 1 kg af deiginu og rúllið í 80 cm langa lengju, skiptið lengjunni þannig:

mælið með reglustiku ½ cm, 1 cm, 1,5 cm, 2 cm, 2,5 cm, 3 cm, 3,5 cm, 4 cm, 4,5 cm, 5 cm, 5,5 cm og svo með 1 cm á milli, 6,5 cm, 7,5 cm o.s.frv. eða þangað til lengjan er búin, mótið þá hringina. Restin af deiginu, 500 g, fer í litla kransabita.

Bakið við 190°C í ca 7-12 mín. eða þangað til hringirnir eru ljósbrúnir, kælið og sprautið með eggjahvítuglassúr (3 eggjahvítur og sigtaður flórsykur) festið hringina með súkkulaði.

Heitur brauðréttur

14 franskbrauðssneiðar

1 camembert-ostur

4 dl rjómi

12 skinkusneiðar

2 rauðar paprikur

1 lítil dós sveppir

1 poki rifinn mozzarella-ostur

1. Bakarofninn hitaður í 185°C

2. Skorpan skorin af brauðinu, raðað í botninn á eldföstu móti.

3. Camembert-osturinn brytjaður niður setttur í pott og hitaður á litlum straum, rjóminn settur út í.

4. Skinkan og paprikan brytjuð smátt.

5. Skinkunni, paprikunni og sveppunum dreift yfir brauðið. Safinn af sveppunum notaður ef þurfa þykir.

6. Ostablöndunni hellt yfir allt.

7. Mozzarella-ostinum dreift yfir.

8. Hitað í ofni í ca 20 mín.

Uppskriftin er fyrir ca 10 manns.