"Fermingarveislan góða." Borðið er fagurlega skreytt með servíettum, kertum og hvítum blómum frá Blómagalleríi, Hagamel 67.
"Fermingarveislan góða." Borðið er fagurlega skreytt með servíettum, kertum og hvítum blómum frá Blómagalleríi, Hagamel 67. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er list að halda góða veislu en þá list má læra og er Stefanía Stefánsdóttir kjörinn lærimeistari í þeim efnum. Hún hefur í fyrsta lagi haldið fjölbreyttar veislur í heimahúsum en einnig er hún "sprenglærður" heimilisfræðikennari og starfar sem aðjunkt við Kennaraháskóla Íslands.

Á ÞEIM mótum æsku- og fullorðinsára sem tengist ímynd fermingarinnar í hugum fólks er ekki ónýtt að gera sér grein fyrir þýðingu matar fyrir heill og hamingju fólks. Stundum er jafnvel sagt að leiðin að hjarta mannsins liggi í gegnum magann - en leiðin að hjarta konunnar er þó víst fremur stráð blómum og jafnvel demöntum, ef marka má stöðugar ábendingar í þá átt í kvikmyndum og öðrum fjölmiðlum.

Stefanía Valdís Stefánsdóttir aðjunkt við heimilisfræðideild Kennaraháskóla Íslnds tók að sér að stjórna aðgerðum þegar útbúin var "fermingarveislan góða" eins og Stefanía orðaði það þegar veislan sem hér er birt í uppskriftum og myndum var í undirbúningi.

Flestir landsmenn hafa setið fermingarveislur í heimahúsum og vita að það þarf bæði útsjónarsemi og smekkvísi til þess að útbúa og stjórna slíkum veislum. Það sama á auðvitað við þegar fólk leigir sali og sér sjálft um veitingar og skipulagningu.

En eitt er víst að enginn verður óbarinn biskup í þeim efnum og því veitir ekki af góðum ráðum og uppskriftum, ekki síst þegar fólk er að halda sína fyrstu stóru veislu, sem fermingarveislur eru oft.

Sjálf segist Stefanía muna sáralítið eftir sinni eigin fermingarverislu.

"Ég var fermd í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu austur á Fljótsdalshéraði en þar er ég fædd og uppalin," segir hún.

"Sjálfsagt hefur stór hluti dagsins farið í ferðina til og frá kirkju á holóttum moldarvegum og eitthvað kaffi var síðan fyrir nánustu fjölskyldu þegar heim var komið.

En ég man miklu meira eftir fermingu bróður míns sem er þremur árum eldri en ég. Þá var sameiginleg fermingarveisla haldin á prestssetrinu á Kirkjubæ og öllum kirkjugestum boðið í kaffi."

Hinn glæsilegi Royal-bæklingur

"Fyrrnefnd veisla var sú stærsta og eftirminnilegasta sem ég hafði nokkru sinni upplifað. Og undirbúningurinn hefur aldrei úr minni mínu liðið. Það stóð svo mikið til á heimilinu og hátíðarstemmning lá í loftinu. Föðursystir mín sem þótti afar myndarleg í öllum verkum kom í heimsókn til að hjálpa til við baksturinn. Og þá hafði nýverið borist inn á heimilið auglýsingabæklingur sem átti að undirstrika ágæti Royal-lyftiduftsins og í honum voru kökuuppskriftir. Ég held að þetta hafi verið fyrsti uppskriftabæklingurinn sem gefinn var út á Íslandi og dreift var meðal almennings. Í bæklingnum var uppskrift af tertu sem var í þremur lögum og var eitt lagið bleikt, annað var gult og það þriðja grænt. Það var matarlitur sem sá um litrofið. Frænka mín bakaði nokkrar svona kökur og sprautaði þær listilega með brúnu kremi. Ég stóð agndofa og fylgdist með framleiðslunni og hafði aldrei séð önnur eins listaverk áður."

Óútreiknanlegt hvað vekur áhuga barna

"Ég held að tertan hennar frænku minnar hafi verið upphafið að áhuga mínum á matargerð.

Það er óútreiknanlegt hvað það er sem vekur áhuga barna og leiðir til þess að þau uppgötva hæfileika sína og áhugasvið. Sem verkmenntakennara hefur mér alltaf fundist það áhyggjuefni hvað námsframboð skóla virðist oft á tíðum einhæft og bókmiðað og síðan bætist við sú staðreynd sem flestir samþykkja að börn læra minna til verka í foreldrahúsum en áður. Hvar eiga börnin að uppgötva hvað í þeim býr sem ekki eru gefin fyrir stærðfræði og tungumálahugtök? Það er ekki að furða þótt mörg þeirra rekist illa í hinu bókmiðaða skólakerfi. Sjálf fékk ég afar litla verkmenntakennslu á skyldunámsstigi og óvíst er hvað um mig hefði orðið, ef regnbogatertan góða hefði ekki kveikt áhuga minn endur fyrir löngu því stærðfræðin var minn óvinur alla mína skólagöngu."

Fyrsta veislan byrjaði ekki vel

"Mín fyrstu veisluhöld byrjuðu ekki vel frekar en hjá mörgum öðrum ungum húsfreyjum. Ég var nýgift og að byrja búskap og ætlaði að sjálfsögðu að sýna manninum mínum hvað í mér byggi. Ég keypti lærissneiðar í fyrstu máltíðina á nýstofnuðu heimilinu, en lærissneiðar voru meðal þess fínasta sem maður keypti í matinn árið 1962 og náttúrlega gaddfreðnar. Ég steikti þær en ég vissi ekki þá að til þess að loka kjötstykki þarf að steikja það við all háan hita stutta stund og við hitaþrýstinginn springa frumuhimnur kjötsins inn á við og steikarskorpan sem myndast við steikinguna varnar því að kjötsafinn flæði út úr kjötinu við matreiðslu. Ég gerði hið gagnstæða. Ég hef steikt sneiðarnar við alltof lágan hita, kjötsafinn flæddi út úr kjötinu og próteinið í kjötsafanum sauð á pönnunni og myndaði skán á hana, kjötið festist í skáninni því meir sem ég hækkaði hitann til að reyna að kalla fram brúningu og að lokum fékk maðurinn minn þurrar soðnar lærissneiðar á diskinn. Ég bætti honum þetta upp síðar."

Tíndi greinar og blóm til að skreyta borðið

"Ég þurfti ung á því að halda að standa fyrir veislum. Maðurinn minn varð ungur opinber embættismaður og það var í lok þess tímabils þegar enn tíðkaðist að móttökur fóru fram á heimili viðkomandi embættismanns. Við vildum standa okkur eins og þeir sem eldri voru og tókum þessar skyldur alvarlega. Ég átti góða og hjálpsama eldri systur sem leiddi mig fyrstu skrefin þar til ég gat þetta sjálf. Við tókum mikið á móti erlendum gestum á þessu tímabili og ég held að eftirminnilegustu veislurnar sem við stóðum fyrir hafi verið í lok funda eða ráðstefna þegar haldið var með gestina út í íslenska náttúru. Farið var með veitingarnar með sér og á meðan gestirnir skoðuðu markverða hluti lagði ég dúka á jörðina, festi þá niður með fallegum steinum, tíndi greinar og blóm í umhverfinu, "skreytti borðið", dró fram pappadiska og glös og með hjálp bílstjórans ýmiskonar veitingar sem komið hafði verið fyrir í farangursrými rútunnar. Sjaldan hef ég fengið meiri þakkir fyrir veitingar en þegar fólkið kom glorsvangt úr skoðunarleiðangrum og átti ekki von á neinu. Þetta voru eftirminnilegar ferðir og oft kvöddum við þakkláta gesti."

Það lærist smátt og smátt að halda veislur

"Það lærðist smátt og smátt að halda veislur, skipuleggja og byrja undirbúninginn snemma. Ég skrifaði alltaf niður eftir hvert boð hvað mikið magn ég hafði þurft og fyrir hvað marga gesti. Ég skrifaði líka stundum hjá mér hvað ég var lengi að gera hvern rétt, lagði alltaf á borðið daginn fyrir boðið og ákvað hvernig ég ætlaði að raða upp veitingunum og á hvaða föt og í hvaða skálar. Það skiptir svo miklu máli hvernig borðið lítur út og hvernig maturinn er fram borinn því sagt er að við borðum með augunum líka. Og þetta getur tekið heillangan tíma. Það er lykilatriði að gera sér grein fyrir því magni sem til þarf því annars fer kostnaður úr böndunum og þú ert að borða feitan og sætan hátíðarmat marga daga eftir boðið, mat sem þú kannske vilt ekki borða en gerir það vegna þess að hann er til og búið er að borga fyrir hann dýrum dómum."

Tvær ólíkar fjölskyldur í einni veislu

"Það er einnig lykill að vel heppnaðri veislu að húsbændurnir séu ekki svo uppteknir í eldhúsinu að þeir geti ekki sinnt gestunum og á fermingardegi verður einnig að vera tími fyrir fermingarbarnið.

Í fermingarveislum eru oft tvær ólíkar fjölskyldur að mætast, fólk sem kannske þekkist ekki mikið og hvor fjölskylda um sig situr í sitt hvoru horninu. Þá er það hlutverk gestgjafanna að ganga á milli, kynna gestina hvern fyrir öðrum og reyna að finna umræðuefni sem tengt getur saman. Það getur verið mikil prýði að því í svona veislum ef einhver nákominn fermingarbarninu talar til þess nokkrum orðum og ég tala nú ekki um ef einhver spilar á hljóðfæri eða ef aðstæður eru til þess að að láta gestina syngja. Eins getur verið gott að koma veitingunum þannig fyrir að fólk þurfti að sækja þær á t.d. tvo mismunandi staði t.d. að kaffi sé borið fram á öðrum stað en maturinn til að meiri hreyfing verði á gestunum og það sitji síður einhverjir fastir í sínu horni."

Söngurinn sameinar hjörtu manna

"Á uppvaxtarárum mínum austur á Fljótsdalshéraði var mikið sungið þegar fólk kom saman. Ég held að söngurinn hafi sameinað hjörtu manna og styrkt vináttuböndin.

Að minnsta kosti var mikil samkennd meðal fólksins þar og samhjálp ef eitthvað erfitt steðjaði að. Einhver skemmtilegustu "partý" sem ég hef upplifað voru boðin heima hjá pabba og mömmu þegar vinir þeirra komu saman og sungið var allt kvöldið. Enda voru margir góðir söngmenn í hópnum. Nú er almennur söngur á undanhaldi og tónmennt á líkt og aðrar list- og verkgreinar við vissa erfiðleika að etja í skólakerfinu. Það er að mínu mati mikill skaði, vegna þess að allar auðga þær lífið hver á sinn hátt og fyrir mér eru það lífsgæði að kunna til verka, geta byggt upp umhverfi sitt, búið með reisn og skapað ánægjustundir fyrir sig og sína auk þess sem það er heilbrigt tómstundagaman."

Heimilisfræðin aldrei verið nauðsynlegri en nú

"Heimilisfræðideild KHÍ flutti fyrir fjórum árum í list- og verkgreinahús Kennaraháskólans í Skipholt 37 þar sem þessar greinar voru allar sameinaðar undir eitt þak. Áður hafði hún verið til húsa í stóru einbýlishúsi við Hamrahlíð. Við flutninginn átti sér stað viss uppbygging og endurmat. Skólastjórnendur studdu vel við þá uppbyggingu og allur ytri aðbúnaður er hér til fyrirmyndar. Þeir höfðu góðan skilning á gildi þessarar greinar enda allir kennslufræðingar að mennt, sem vita vel að greinin hefur samfélagslegt gildi og að fábreytt skólastarf getur leitt af sér hóp óánægðra nemenda sem aftur getur leitt til óánægðra þjóðfélagsþegna sem hvorki verða sjálfum sér né samfélaginu til þess gagns og gleði sem efni gætu staðið til. Þjóðfélag sem þannig býr að sínu unga fólki nýtir ekki mannauð sinn og spurning er hvernig það síðar endurspeglast í heilsufars- og efnahagslegu tilliti.

Heimilisfræðin hefur sennilega aldrei verið nauðsynlegri samfélagslega séð en einmitt nú um stundir. Allir vita um ofeldið og offituna sem er að stórskaða heilsu alltof margra og meðal nemenda finnast einstaklingar komnir undir þrítugt sem hvorki kunna að elda kjöt né fisk og geta nánast enga björg sér veitt í þessu tilliti hvað þá borið ábyrgð á neyslu annarra. Þegar maður spyr; en hvernig fórstu að þessu eða hinu? heyrir maður svör eins og - ég sauð bara pasta og opnaði krukkur og dósir með sósum sem ég hellti út á og hitaði. Ef ég spyr hvernig fórstu að um helgar eða hátíðir? getur svarið verið: Þá fer ég bara með fjölskylduna til mömmu eða tengdó. Mig uggir að það fari í vöxt að ungt fólk fari út í lífið vanbúið að þessu leyti og með litla þekkingu á hollustuháttum og næringu. En þessir nemendur hafa nær undantekningarlaust verið duglegir að tileinka sér námið og stundum finnst mér þeir beinlínis drekka í sig nýja þekkingu og vera fljótir að öðlast nýja hæfni. Þeir finna sjálfir að þeir verða að læra til verka, kunna skilin á milli hollustu og óhollustu til að ráða við að ala upp börn og stofna fjölskyldu. Síðan kemur sú uppgötvun að það er gaman að náminu, framfarirnar ótrúlegar og magnað andrúmsloft getur skapast í kennslustundum.

Stundum finnst mér mest gaman að kenna þeim sem minnst kunna þegar þeir koma til mín. Það er svo stórkostlegt að upplifa hverju sköpunargleðin fær áorkað."

Hópurinn sem útbjó "fermingarveisluna góðu"

"Við erum með breiðan hóp nemenda og kunnáttan er á öllum stigum. Hingað hafa sótt í auknum mæli kennarar sem eru í námsleyfi. Svo vildi til að það var einmitt þannig hópur sem valdist í verkefnið "fermingarveislan góða". Þetta voru æfðar húsmæður, bráðduglegar og vel verki farnar. Það tók þær 11 talsins aðeins rúmlega tvær stundir að útbúa veisluborðið. Þetta verkefni var kennarastýrt en þær skila þér líka plani að fermingarveislu sem þær hafa alfarið útbúið sjálfar. Þessir nemendur eru að sjálfsögðu ólíkir hinum yngri því þeir hafa reynslu og þroska og þekkja skólastarf og allar hinar fjölbreyttu hliðar þess. Þetta eru þakklátustu nemendur sem ég fæ og gefa kennaranum mesta endurgjöf. Þeir vita sem er að kennari veit aldrei nema að hluta hvernig honum tekst til í starfi og hverju hann fær áorkað og því er mikilvægt fyrir hann að fá að heyra hvað nemendum finnst. Þeir rökstyðja mat sitt af þekkingu og reynslu og mat þeirra á verkefnunum og kennslunni hafa verið mér leiðarljós og kynnin af þeim veitt mér ómælda gleði."