Þær útbjuggu "fermingarveisluna" góðu og völdu mataruppskriftir. F.v. Agnes Þorleifsdóttir, Anna Fjeldsted, Ásdís Kristinsdóttir, Jóhanna Jónasdóttir, Jóna S. Sigurðardóttir, Kristín Þórey Eyþórsdóttir, Kristín Sigurðardóttir, Sigríður Ósk Reynaldsdót
Þær útbjuggu "fermingarveisluna" góðu og völdu mataruppskriftir. F.v. Agnes Þorleifsdóttir, Anna Fjeldsted, Ásdís Kristinsdóttir, Jóhanna Jónasdóttir, Jóna S. Sigurðardóttir, Kristín Þórey Eyþórsdóttir, Kristín Sigurðardóttir, Sigríður Ósk Reynaldsdót — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nemendur Stefaníu Stefánsdóttur við heimilisfræðideild KHÍ koma hér með tillögur að réttum á fermingarhlaðborð. Þetta eru allt uppskriftir sem þær hafa sjálfar reynt með mjög góðum árangri, margar uppskriftanna eru úr eldhúsi þeirra sjálfra.

Þegar halda á góða veislu er að mörgu að hyggja. Hér eru nokkrar góðar ábendingar um það hvernig hægt er að halda góða fermingarveislu í heimahúsi og hafa hana á viðráðanlegu verði.

Undirbúningur hefst venjulega löngu fyrir tilsettan dag og má þar nefna að fermingarfatnaður, boðskort og fleira hafa verið keypt. Boðskort er hægt að útbúa í tölvu, kaupa tilbúin kort eða föndra kortin sjálfur.

Eins og allir vita er kostnaður við veislu sem þessa talsverður og því getur verið gott að dreifa honum.

Ýmislegt er hægt að kaupa fyrirfram og nauðsynlegt er að vera búinn að ákveða tímanlega borðskreytingu og hvaða liti á að nota. Fermingarservíettur fást á bilinu 250-500 kr. pakkinn. Fermingarkerti sem merkt eru barninu kosta 1000-3000 kr. Margt til veislunnar er hægt að kaupa löngu áður svo sem kaffi, gos, niðursoðnar dósavörur og frystivörur.

Tveir pakkar af kaffi ættu að duga í 20 manna veislu og er verðið á bilinu 250-320 kr. fyrir 500 g pakka. Áætla þarf um hálfan lítra af gosi fyrir hvern mann, þannig að 10-15 lítrar ættu að duga fyrir 20 manns. Gos í tveggja lítra umbúðum kostar um 190 kr. Nauðsynlegt er að bjóða upp á ískalt klakavatn og fallegt er að setja sítrónu- og limesneiðar út í.

Gott er að velja rétti til veislunnar sem hægt er að útbúa fyrirfram. Húsráðendur ættu að vera sem minnst uppteknir við matartilbúning á fermingardaginn.

Með þetta að leiðarljósi eru settar fram hugmyndir að köldu matarhlaðborði sem allir ættu að geta útbúið sjálfir heima. Fyrir valinu urðu réttir sem eiga það sameiginlegt að vera einfaldir og góðir. Suma þeirra er hægt að matreiða með góðum fyrirvara og geyma í frysti en aðra er hægt að hafa til daginn áður.

Grænmeti er best að kaupa sem ferskast eða degi fyrir veisluna. Til að flýta fyrir er gott að vera búinn að skera/rífa niður grænmeti og geyma á köldum stað. Uppskriftirnar að bollunum sem eru á kaffihlaðborðinu henta vel sem meðlæti og má ef vill hafa þær í formi brauðs/snittubrauðs. Auðvitað má baka brauðið þegar hentar og frysta.

Hlaðborð: Laxakonfekt - rækjuréttur - kaldur kjúklingur á grænmetisbeði - köld skinka - pottþéttur pottréttur - grænmetissalat - hrísgrjón - kartöflur í eldföstu móti - Dajmterta - brauð.

Athugið að uppskriftirnar miðast við 20 manna veislu.

Laxakonfekt

500 g reyktur lax

375 g rækjur

375 g sýrður rjómi

2½ tsk. þurrkað dill

¾ tsk. salt

¾ tsk. pipar

1½ tsk. karrý

13 blöð matarlím

2½ dl rjómi

1. Setjið reykta laxinn og rækjurnar í matvinnsluvél og maukið.

2. Hrærið kryddið saman við sýrða rjómann.

3. Látið matarlímsblöðin liggja í bleyti í 5 mínútur í köldu vatni.

4. Setjið rjómann í lítinn pott og hitið við vægan hita þangað til hann er orðin ylvolgur um það bil 35 gráður. Takið pottinn af hellunni

5. Takið matarlímið upp úr vatninu og kreistið úr því vatnið og setjið út í rjómann. Gott er að hræra aðeins í vökvanum meðan matarlímið er að bráðna. Gætið þess að hafa ekki of mikinn hita á rjómanum.

6. Hrærið síðan rjóma- og matarlímsblöndunni saman við sýrða rjómann og kryddið.

7. Bætið að lokum maukaða laxinum og rækjunum varlega saman við.

Gangið frá laxamaukinu á eftirfarandi hátt

1. Klæðið 2-3 stór jólakökuform (eða önnur mót sem henta) með matarfilmu.

2. Hellið því næst maukinu í formin og lokið með plastfilmu. Ef vill má raða þunnum laxasneiðum í formin og upp með hliðum þeirra, hella maukinu síðan í og leggja að lokum laxasneiðar ofan á og filmuna þar yfir. Ef þessi leið er valin þarf að bæta við laxasneiðum.

3. Látið standa í kæli yfir nótt.

Gott er að frysta þennan rétt og taka hann síðan úr frosti 5-6 klst. áður en veisla hefst. Þá er tilvalið að taka hann úr forminu hálffrosin og skera í 1 cm sneiðar og setja á fat. Fallegt er að skreyta laxasneiðarnar með fersku dilli eða steinselju. Skreyta má fatið með harðsoðnum eggjum sem búið er að skera í báta, tómata, agúrku, sítrónu eða limebátum og ef til vill ristuðu brauði.

Geymist í kæli í 2-3 daga.

Sósan:

4 dl sýrður rjómi

3 dl majones

3 dl fínt saxaðar súrar agúrkur

smá sítrónusafi

1. Hrærið saman sýrða rjómanum og majonesinu.

2. Saxið gúrkurnar smátt og bætið út í.

3. Bragðbætið með sítrónusafa.

Þessi réttur er mjög bragðgóður og ferskur. Það er hægt að gera hann löngu áður og geyma í frysti. Sósuna þarf að gera daginn áður.

Áætlaður kostnaður við þennan rétt er 4000 kr.

Einfaldur

rækjuréttur

1 kg rækjur

1-2 heildósir blandaðir

ávextir (t.d. Del Monde)

2 dósir sýrður rjómi (10%)

2 tsk. sykur

2 tsk. provencale krydd

(Knorr)

1. Þíðið rækjurnar, látið vökvann renna vel af ávöxtunum og blandið þessu saman.

2. Leggið salatblöð í grunna, glæra skál og setjið rækjublönduna ofan á.

3. Hrærið sýrða rjómanum, sykrinum og provencale kryddinu saman og berið fram með réttinum.

Þessi réttur er bæði góður og fallegur á borði. Þarf að útbúa samdægurs. Verð u.þ.b. 2000 kr.

Kaldur kjúklingur

á grænmetisbeði

7 kjúklingar grillaðir

1 poki veislusalat

1 höfuð jöklasalat (iceberg)

rifið niður

4 paprikur rauðar og gular

250 g sveppir skornir í sneiðar

1-2 öskjur furuhnetur ristaðar

1. Hreinsið kjúklingana af beinum og skerið í litla bita.

2. Rifið veislusalatið smærra ef þarf.

3. Rifið jöklasalatið niður.

4. Ristið hneturnar á þurri pönnu við góðan hita.

5. Skerið paprikurnar í litla ferninga.

6. Skerið fersku sveppina í sneiðar að morgni veisludags.

Blandið saman veislusalati, jöklasalati, paprikum og sveppunum. Komið fyrir á sléttu fati eða stórum diski. Kjúklingabitarnir settir ofan á og ristuðum hnetunum stráð yfir.

Sinnepssósa:

1½ dós (300 g) sýrður rjómi

½ dós (125 g) léttmajones

franskt sætt sinnep

Sýrður rjómi og majones hrært saman og smakkað til með frönsku sinnepi.

Sósan ásamt heimabökuðu brauði borin fram með réttinum.

Daginn fyrir veisluna er hægt að kaupa grillaða kjúklinga, kæla þá og skera í litla bita. Þeir kosta um það bil 700 kr. hver. Á þetta fermingarborð ætti 1/2 uppskrift að nægja.

Þessi uppskrift er ætluð fyrir tuttugu manns sem aðalréttur.

Pottþéttur

pottréttur

2,5 kg beinlaust svínakjöt

eða lambakjöt í bitum

4 tsk. karrí

3 laukar saxaðir

500 g sveppir, skornir í sneiðar

matarolía til steikingar

2 krukkur Sweet Relish

2 krukkur Mango Chutney

4 stórir súputeningar

2½ dl vatn

heildós ananas, í bitum

2 rauðar paprikur, skornar

í bita

1. Hitið olíu og brúnið kjötið, kryddið með karrí og setjið í pott.

2. Brúnið laukinn og sveppi og setjið út í pottinn.

3. Bætið Sweet Relish og Mango Chutney út í ásamt súputeningum og vatninu. Látið sjóða við vægan hita í 45 mínútur. Hrærið í af og til.

4. Bætið ananas og paprikubitum út í áður en rétturinn er hitaður upp. Passið að láta suðuna koma upp á réttinum áður en hann fer á borðið.

Ef notað er svínakjöt er kostnaður um það bil 4.200 kr. En með lambakjöti er kostnaðurinn u.þ.b. 6.700.

Hrísgrjón:

15 dl (u.þ.b. 1½ kg) hrísgrjón

soðin í 3 lítrum af vatni.

1. Þrýstið hrísgrjónunum ofan í kringlótt kökuform með gati í miðjunni sem bleytt hefur verið með köldu vatni.

2. Hvolfið síðan á disk. Ef diskurinn er lítillega bleyttur er auðvelt að laga hringinn til á honum.

3. Skreytið með hálfum ananassneiðum og rauðum kokkteilberjum með stilk, utan með hringnum á fatinu.

Það er fallegra að nota Basmati villihrísgrjónablöndu en venjuleg hvít hrísgrjón. 500 g kosta 400 kr. en hvít grjón 200 kr.

Kartöflur í eldföstu móti

3 kg kartöflur

5 laukar

2 tsk. salt (má sleppa)

2 fernur matreiðslurjómi

500 g rifinn ostur

1. Afhýðið laukinn og skerið í þunnar sneiðar.

2. Flysjið hráar kartöflur og skerið í þunnar sneiðar.

3. Leggið kartöflur og lauk til skiptis í smurð eldföst mót þannig að kartöflur séu

neðst og efst.

4. Hellið rjómanum yfir og bakið við 200° C neðarlega í ofni í 45-50 mínútur.

5. Stráið rifna ostinum yfir og bakið með síðustu 10 mínúturnar.

Laukinn má brytja daginn áður og geyma í gleríláti til næsta dags. Kartöflurnar má einnig flysja og geyma heilar í fersku vatni í lokuðu íláti.

Hagstæðast er að velja kartöflur í lausu og kaupa stóran ostbita.

Samanlagður kostnaður er 1.300 kr.

Þetta kartöflufat er gott að bera fram með kaldri skinku.

Fyrir fermingarnar verður til bæði eðalskinka og raftaskinka í Nóatúni í Austurveri á tilboðsverði. Gott væri að kaupa báðar tegundirnar, sneiða þær þunnt, raða á fat með heilum aspas og litlum gulrótum. Áætlið 100 g á manninn þ.e. 2 kg fyrir þetta boð eins og það er uppsett.

Gott grænmetissalat

1½ poki salatblanda

nokkur blá vínber

4 tómatar

5-6 sveppir

½ agúrka

1 rauð paprika

fetaostur í kryddolíu

1-2 msk. af kryddolíunni

frá fetaostinum

2 tsk. balsamik edik

rauðlaukur

1. Setjið salatblönduna í fallega glerskál.

2. Skerið tómatana í þunna bita, sveppina í þunnar sneiðar og paprikuna í þunnar lengjur og leggið yfir salatið í skálinni. Raðið fallega.

3. Skerið agúrkuna í sneiðar og sneiðarnar síðan í fernt. Skerið vínberin í tvennt og takið úr þeim steinana og bætið þessu út í skálina.

4. Flysjið rauðlaukinn og skerið hann í þunna hringi og leggið yfir grænmetið.

5. Setjið fetaostinn yfir og hafið magnið eftir smekk. Má einnig bera fram í skál með.

6. Blandið saman 1 msk. af olíunni af fetaostinum og 2 tsk. af balsamik ediki og hellið yfir salatið.

Tvöfalda þarf uppskriftina fyrir 20 manna boð.

Salatið þarf að vera ferskt og er því best að útbúa það samdægurs. Verð á þessu salati er u.þ.b. 1.800 kr.

Daimterta

Botn:

4 eggjahvítur

2½ dl sykur

100 g saxaðar valhnetur

1. Stífþeytið eggjahvítur með sykri (blandið sykrinum smám saman út í).

2. Hrærið valhnetunum saman við.

3. Setjið deigið á smurðan bökunarpappír og hafið stærð kökunnar ca 37cm x 25cm.

4. Bakið við 100° í 1½ klst.

Fylling:

7½ dl rjómi (3 pelar)

4 eggjarauður

1 dl sykur

6 stk. daimsúkkulaði

(smátt saxað)

1. Þeytið mjög vel saman eggjarauður og sykur.

2. Þeytið rjómann.

3. Blandið síðan öllu varlega saman ásamt daimsúkkulaðinu.

4. Fyllingin sett yfir botninn (kaldan) og tertan síðan fryst.

Þessi terta er mjög góður eftirréttur með kaffi og hana má baka tímanlega fyrir veislu því kakan er sett í frysti og borin fram frosin. Tertuna má baka í eldföstu fati og setja ísinn ofan á og frysta, bera síðan fram í fatinu.

Fyrir 20 manns er ágætt að baka 2 tertur.

Kostnaður við tvær tertur er u.þ.b.

2.300 kr.

Í uppskriftum á kaffihlaðborðinu eru einnig tertur sem má nota í eftirrétt. Sérstaklega er mælt með Sælgætistertunni sem eftirrétti.

Þegar áætla á magn á manninn í svona veislu er gott að þekkja hópinn og áætla magn veitinganna út frá því. Í fermingarveislum er það einmitt hægt því þá er það yfirleitt fjölskyldurnar sem eru að koma saman.

Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu!