[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flestum finnst gott að vera umluktir vatni, bæði þegar þeir eru að leika sér, slaka á og gera æfingar til að styrkja líkamann.

Flestum finnst gott að vera umluktir vatni, bæði þegar þeir eru að leika sér, slaka á og gera æfingar til að styrkja líkamann. Þannig eru sundlaugar í mörgum flottustu höllum heimsins og vitað er að fólk stundaði sundíþróttir á tímum Forn-Egypta, Forn-Grikkja og Rómverja.

Íslendingar hafa líka stundað sund alveg frá landnámsöld og í Íslendingasögunum er til fræg saga af því þegar kappinn Kjartan Ólafsson heillaði bæði kónginn og drottninguna í Noregi með sundfimi sinni.

Þetta var fyrir um það bil þúsund árum og enn þann dag í dag er sund ein af þeim íþróttum sem Íslendingum hefur gengið hvað best í á stórum íþróttamótum. Það er því ekkert skrýtið að margir íslenskir krakkar skuli hafa áhuga á að æfa sund.

Kristrún Gústafsdóttir æfði sund frá því hún var níu ára og þar til hún var þrettán ára og starfar nú sem þjálfari hjá sundfélaginu Ægi. Við báðum hana að segja okkur aðeins frá þessari íþrótt sem flestir Íslendingar eru svo heppnir að kunna svolítið í.

"Það er auðvitað gott fyrir alla að vera vel syndir," segir Kristrún. "Svo er þetta skemmtileg einstaklingsíþrótt þar sem maður þarf ekki að treysta á aðra til að ná árangri. Maður verður að læra að treysta á sjálfan sig til að ná árangri í sundi og ég held að það sé gott fyrir krakka. Svo er líka miklu erfiðara að meiða sig í sundi en í flestum öðrum íþróttum."

Hvað þarf maður að gera til að ná árangri í sundi?

"Til að byrja með er það fyrst og fremst styrkur krakkanna sem ræður því hvað þau ná góðum árangri en þegar lengra er komið fer tæknin að skipta meira máli. Ungir krakkar hafa ekki alltaf styrk til að tileinka sér rétta tækni en þegar þau eldast skiptir miklu máli að ná réttu tækninni."

Geturðu nefnt dæmi um tækni sem skiptir máli?

"Já, í bringusundi skiptir til dæmis máli að láta sig renna vel eftir hvert tak því þá fer maður hraðar. Sumir gera sundtökin líkaþannig að þeir ýta höndunum niður í tökunum en það er erfiðara og dregur því úr hraðanum."

Hvað þurfa krakkar að læra sem vilja æfa sund?

"Þau þurfa að læra flugsund, baksund, bringusund og skriðsund."

Er það erfitt?

"Það er mjög misjafnt hvað krakkar eru fljótir að ná hverju sundi fyrir sig. Flugsundið er líkamlega erfiðast því maður þarf að lyfta öllum efri líkamanum upp úr vatninu til að anda en sumir eru samt mjög fljótir að ná því. Svo finnst öðrum baksundið erfiðara þannig að það er bara misjafnt hvað fólk ræður best við. Það eiga þó allir að geta náð þessu og ég hef tekið eftir því að því áhugasamari sem krakkarnir eru því betri verða þeir."

Eru flestir í þessu til að geta tekið þátt í sundkeppnum?

"Það er svolítið misjafnt. Sumir eru með mikið keppnisskap og verða rosalega ánægðir þegar það er keppni framundan en aðrir eru alls ekki í þessu til að keppa."