Þýska skáldið Heinrich Heine skrifaði um landa sinn og heimspekinginn Immanúel Kant: "Það er erfitt að lýsa ævisögu Kants því að hann átti sér ekkert líf og enga sögu.
Þýska skáldið Heinrich Heine skrifaði um landa sinn og heimspekinginn Immanúel Kant: "Það er erfitt að lýsa ævisögu Kants því að hann átti sér ekkert líf og enga sögu. Hann lifði vélrænt skipulögðu, næstum óhlutbundnu, piparsveinslífi í rólegri götu í útborg Königsberg, gamalli borg á norðausturlandamærum Þýskalands. Ég held að stóra dómkirkjuklukkan hafi ekki sinnt hlutverki sínu af minni ástríðu og minni reglufestu en landi hennar Immanuel Kant. Að vakna, drekka kaffi, skrifa, flytja fyrirlestra, borða, fara í gönguferð, allt hafði sinn ákveðna tíma." Þann 12. febrúar síðastliðinn voru 200 ár liðin frá því að Kant lést, en hann fæddist 22. apríl 1724. Alla ævi bjó hann í Königsberg, sem nú heitir Kalíníngrad, og var kunnasti heimspekingur hins þýskumælandi heims á átjándu öld. Guðmundur Heiðar Frímannsson sagði m.a. í erindi sem hann flutti í minningu Kants á opnum degi í Háskólanum á Akureyri 14. febrúar sl.: "Líkið stóð uppi í tvær vikur og íbúar bæjarins biðu í röðum til að sjá það. Það var svo kalt í Königsberg þessar vikur að ekki var hægt að taka gröf vegna þess hve jörð var frosin. En 28. febrúar var hann jarðaður að viðstöddu fjölmenni, flutt var kantata við útförina, sú sama og við útför Friðriks mikla enda þótti við hæfi að merkilegasti heimspekingur Prússlands nyti sömu viðhafnar og merkasti konungur Prússlands."