Guðrún Norðdahl við eitt verka sinna í Íslensk grafík.
Guðrún Norðdahl við eitt verka sinna í Íslensk grafík. — Morgunblaðið/Jim Smart
Guðrún Norðdahl opnar sýningu í sal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu kl. 15 í dag. Guðrún hefur búið og starfað í Bandríkjunum undanfarin ár en sýnir nú í fyrsta sinn á Íslandi. Hún er arkitekt frá Arkitektaskólanum í Árósum og vann sem slík í 10 ár.

Guðrún Norðdahl opnar sýningu í sal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu kl. 15 í dag. Guðrún hefur búið og starfað í Bandríkjunum undanfarin ár en sýnir nú í fyrsta sinn á Íslandi. Hún er arkitekt frá Arkitektaskólanum í Árósum og vann sem slík í 10 ár. Þá breytti hún um stefnu fór til Bandaríkjanna í myndlistarnám.

Hvað kom til að þú ákvaðst að snúa þér að myndlistinni?

"Ég hef frá því ég var lítil telpa átt þann draum að verða myndlistarmaður. En ég gerði ekkert við þann draum fyrr en ég var rúmlega 30 ára er ég stóð á miklum tímamótum í lífi mínu. Þá var annaðhvort að fara í "langt sumarfrí" eða skipta um ham. Ég söðlaði um, gerði upp líf mitt og ákvað að hlúa að æskudraumnum og það er dásamlegt að komast í takt við púlsinn sinn."

Guðrún lauk MFA-námi í myndlist árið 1997 frá Louisiana Tech University. Hún hlaut margar viðurkenningar fyrir list sína meðan á námi stóð og tók þátt í mörgum sýningum. Eftir námið flutti hún til Atlanta í Georgíufylki og hélt þar nokkrar sýningar á vegum Bender Fine Art Gallery. Hún kom heim árið 1998 en hélt áfram að sýna verk sín í Atlanta, Monroe og í New Orleans.

Guðrún segir það ekki hafa verið auðvelt að komast inn í skólann í Bandaríkjunum, "vegna þess að ég hafði ekki þennan "típíska" myndlistarbakgrunn. Ég vann mig í gegnum brimgarðinn og komst inn í mastersnám eftir að ég var búin að vera rúmt ár myndlistarnámi. Oft kemur það sér vel að vita ekki almennilega hvað maður er að fara út í. Bandaríkjamenn eru með fastmótaðar skoðanir og strangar reglur og komst ég að því síðar að ég fór mjög óhefðbunda leið inn í námið. Reglurnar voru ekkert að þvælast fyrir mér, einfaldlega vegna þess að ég þekkti þær ekki. Ég fór áfram á eldmóði og brennandi áhuga. Þar kom að mér var boðið í mastersnámið eftir að ég hafði fengið verðlaun fyrir skúlptúr í skólanum. Ég byrjaði að mála í fyrra og í nóvember ákvað ég að nú væri rétti tíminn til að halda sýningu á Íslandi."

Hvað ertu að fást við í myndlistinni?

"Viðfangsefnið er manneskjan og "veran". Í gegnum tíðina hafa komið aftur og aftur til mín konur og verur. Sumar eru lengi að birtast en aðrar koma fljótt, þetta byrjar oftast eins og samtal. Mér er hugleikin sú vídd sem okkur flestum er hulin og tengist verndurum og leiðbeinendum okkar. Ég mála frekar expressjónískt, blanda saman faglegu sjónarmiði og einnig innsæinu. En ég gef áhorfandum eftir að túlka út frá eigin orðabók."

Myndir Guðrúnar eru margbreytilegar. Stundum eru táknin mjög augljós en stundum óræð. Verurnar og manneskjan renna saman eins og ljóð, í formi og litum, er kveikir forvitni og löngun til að skilja það sem "sagt" er. Hvað tekur við, nú þegar þú ert búin að ljúka þessu verkefni?

"Mér finnst ég lifa spennandi tíma núna, rétt eins og ég sé á upphafspunkti á nýjan leik. Ég ætla fylgja eftir sýningunni á Íslandi og þeim samböndum sem ég hafði í Ameríku og sjá hvert það leiðir mig."

Sýningin er opin fimmtudaga til sunnudaga kl. 14-18 og lýkur 28. mars.

helgag@mbl.is