I Don DeLillo benti á það í skáldsögu sinni Mao II, sem kom út árið 1991, að hryðjuverkamenn hefðu tekið við því hlutverki af skáldsagnahöfundum að breyta innra lífi menningarsamfélaga.

I Don DeLillo benti á það í skáldsögu sinni Mao II, sem kom út árið 1991, að hryðjuverkamenn hefðu tekið við því hlutverki af skáldsagnahöfundum að breyta innra lífi menningarsamfélaga. Og það er satt að segja auðvelt að trúa þeim orðum, að minnsta kosti virðist varla vera hægt að sinna mörgum jafn fánýtum störfum nú um stundir og að skrifa skáldsögu. Að setja orð á hvítan pappír um tilbúnar sálir, um mannlegar tilfinningar, um ástand heimsins, um hugmyndalíf samtímans - lýsingin ein hljómar meira að segja innantóm. Nei, sennilega er ekki hægt að hugsa sér neitt jafn fánýtt og að skrifa skáldsögu þegar ógnarverkin hafa talað. Skáldsagan verður meira eins og sníkjudýr á tímanum, á lesendum, á fjölmiðlum, í mesta lagi eins og pirrandi kláði.

II En sennilega varir þetta ástand einungis um stutta stund. Áður en langt um líður verðum við búin að taka skáldsöguna í sátt á ný. Hún mun halda áfram því verkefni að varpa ljósi á menningu okkar og samtíma en ólíklegt er að hún muni fá einhverju breytt sem máli skiptir. Skáldsagan er, eins og allt prentað mál um þessar mundir, algjörlega áhrifalaus miðill, hún er saklaust listform, erkitýpískt tákn sem er orðið svo inngróið í okkur að það er löngu hætt að koma á óvart. Það var rétt hjá DeLillo að það eru ekki skáldverkin sem tala nú heldur ógnarverkin, og þau tala mál sem við fáum engan veginn skilið, sem kemur okkur alltaf á óvart. Einmitt vegna þess eru ógnarverkin öflugasti og áhrifamesti miðill samtímans. Ólíkt skáldsögunni breyta þau því hvernig við hugsum, hvernig við tölum, hvernig við hegðum okkur, hvernig við lifum lífinu. Það er ekkert eins og það var eftir ógnarverkið. Það er allt eins og það var eftir skáldverkið.

III En við munum samt sem áður halda áfram að deila um þetta listform, við munum samt halda áfram að tala um það hvernig best sé að lýsa þessum áhrifum af ógnvarverkunum, hvernig best sé að orða á hvítum pappír það sem við ekki skiljum. Og alltaf skal einn og einn maður skjóta upp kollinum sem orðar hlutina á einhvern þann hátt að okkur finnst við sjá í gegnum móðuna. DeLillo er sannarlega einn af þeim höfundum. Hann er með loftnetið uppi. Hann er strákpjakkurinn sem stendur upp úr þvögunni öllum á óvart, bendir á keisarann og segir hátt og snjallt: Þú ert allsber! Og það er einmitt málið. Ef skáldsagan hefur eitthvert hlutverk í samtímanum þá er það að afhjúpa blindu samtímans á sjálfan sig, að rjúfa þögnina sem samþykkir alla vitleysuna ... að benda og segja, svona eru hlutirnir í raun og veru.

IV Stendhal sagði að skáldskapur væri spegill sem ferðast væri með eftir alfaraleið. Spegillinn er sennilega raunsæjasti miðill sem til er. Þegar sprengjur hafa verið sprengdar þar sem þúsundir manna fara daglega um í sakleysi sínu þarf að líta á hlutina með raunsæjum hætti. Það verður svo að koma í ljós hvort nokkur maður þolir að sjá það sem spegillinn sýnir okkur eftir það sem á undan er gengið.