Marlene van Niekerk
Marlene van Niekerk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÓK suður-afríska rithöfundarins Marlene van Niekerk Triomf var nýlega gefin út á ensku í fyrsta skipti, en van Niekerk þykir þar takast einkar vel upp með að draga fram rósturkennda mynd af útslitinni suður-afrískri sveitafjölskyldu sem á í miklum...

BÓK suður-afríska rithöfundarins Marlene van Niekerk Triomf var nýlega gefin út á ensku í fyrsta skipti, en van Niekerk þykir þar takast einkar vel upp með að draga fram rósturkennda mynd af útslitinni suður-afrískri sveitafjölskyldu sem á í miklum erfiðleikum með að laga sig að breyttum þjóðfélagsaðstæðum.

Triomf , sem var frumraun van Niekerk, kom fyrst út í Suður-Afríku fyrir tíu árum - á sama tíma og fyrstu lýðræðislegu kosningarnar voru haldnar í landinu í kjölfar loka aðskilnaðar stefnunnar. Sögusviðið í Triomf er Sophiatown, staður sem hafði mikil áhrif á þróun mála í landinu á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar, en bókin hefst í október 1993 er kosningarnar nálgast óðfluga.

Afvopnun Íraks

HANS Blix, sem flestum er eflaust best kunnur sem fyrrum yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna, hefur sent frá sér bók um aðdraganda Írakstríðsins. Bókin nefnist Disarming Iraq: The Search for Weapons of Mass Destruction , eða Afvopnun Íraks: Leitin að gereyðingarvopnunum eins og heiti hennar gæti útlagst á íslensku. Líkt og heiti bókarinnar gefur til kynna fjallar Blix þar m.a. um ferð vopnaeftirlitsnefndarinnar til Írak haustið 2002, en þá voru fjögur ár liðin frá því eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna voru þar síðast á ferð. Stjórn George Bush, Bandaríkjaforseta, sagði þá nefndina ekki fá að vinna störf sín í friði og bendir Blix í skrifum sínum á að margir nánustu samstarfsmenn forsetans hafi ekki viljað að Saddam Hussein leyfði nefndinni að sinna störfum sínum, auk þess sem hann lýsir því hvernig Tony Blair, forsætisráðherra Breta, sannfærður um réttmæti fullyrðinga leyniþjónustumanna, reyndi aftur og aftur í aðdraganda stríðsins að fá Sameinuðu þjóðanna til að álykta um málið að nýju.

Dýrslegt eðli

FYRSTA smásagnasafn Hannah Tinti Animal Crackers þykir heillandi lesning, og er höfundurinn sagður hafa náð að vefa þar saman góða spennusagnahefð og tilraunakenndan prósa sem skipar bókinni í raun í alveg sérstakan flokk. Sögurnar tengjast innbyrðis með notkun Tinti á dýrum til að kanna frekar hinar ýmsu mannlegu tilfinningar. Í sögunni Gallus Gallus er vandamálum hjóna til að mynda lýst með slæmri meðferð eiginmannsins á verðlaunahana sem er í miklu uppáhaldi hjá konu hans. Með því að tengja sögupersónur sínar svo náið við dýraríkið þykir Tinti takast einkar vel að sýna fram á frumeðlið sem finna má undir jafnvel snyrtilegasta glæsiklæðnaði.