Sjóntækjafræðingar fögnuðu samþykkt laga á Alþingi sem gefa þeim réttindi til sjónmælinga.
Sjóntækjafræðingar fögnuðu samþykkt laga á Alþingi sem gefa þeim réttindi til sjónmælinga. — Morgunblaðið/Jim Smart
"MIKLUM áfanga er náð í okkar réttindabaráttu," segir Kjartan Kristjánsson, sjóntækjafræðingur og eigandi Optic Studíó, sem fagnaði á fimmtudagsmorgun ásamt starfsfólki sínu, samþykkt Alþingis á lögum sem gera sjóntækjafræðingum kleift að...

"MIKLUM áfanga er náð í okkar réttindabaráttu," segir Kjartan Kristjánsson, sjóntækjafræðingur og eigandi Optic Studíó, sem fagnaði á fimmtudagsmorgun ásamt starfsfólki sínu, samþykkt Alþingis á lögum sem gera sjóntækjafræðingum kleift að stunda sjónmælingar. "Starfsréttindabarátta okkar er nánast á enda, því við erum búin að fá þessi lög samþykkt og getum farið að starfa eins og kollegar okkar á Norðurlöndum, um það vorum við fyrst og fremst að biðja, enda höfum við menntunina til þess," segir hann.

Alþingi samþykkti lögin, með öllum greiddum atkvæðum, hinn 8. mars síðastliðinn og taka þau gildi 15. júní næstkomandi. "Við væntum þess að reglugerðir með lögunum verði með sama hætti og í nágrannalöndum okkar þar sem við sóttum okkar nám. Það má segja að sjónmælingar hafi verið stundaðar hér á landi í mörg ár, því aldrei hefur verið amast við því að fólk fengi mælingu fyrir linsum hjá sjóntækjafræðingum," segir Kjartan.

Sjóntækjafræðingar hér á landi eru um 50 talsins. "Margir eru búnir að vera með þessa menntun til margra ára en hafa mátt búa við það að geta ekki starfað við sitt fag. Við fögnum því að sjá fyrir endann á því. Það má kannski segja að þetta hafi í sjálfu sér verið mjúk og góð lending, því á tímabili virtist vera harka í þessu, en í raun varð nokkuð góð sátt um málið," segir hann.