Árni Magnússon félagsmálaráðherra flutti afar athyglisverða ræðu á Iðnþingi í gær. Ráðherrann sagði m.a.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra flutti afar athyglisverða ræðu á Iðnþingi í gær. Ráðherrann sagði m.a.:

"Við þessar aðstæður hafa rótgróin fyrirtæki skipt um eigendur, bankar eru orðnir virkir þátttakendur í íslenzku atvinnulífi með eignarhaldi sínu og beinum afskiptum. Það er reyndar verulegt umhugsunarefni að mínu mati, með hvaða hætti starfshættir viðskiptabankanna hafa breytzt á undanförnum árum. Það sem áður voru þjónustustofnanir við heimilin og atvinnulífið eru nú orðnir virkir gerendur á fyrirtækjamarkaði. Er það raunverulega svo að eðlilegt sé að einstakir viðskiptabankar verji mestum kröftum sínum og fjármunum, jafnvel með stórkostlegum erlendum lántökum, í að brytja niður fyrirtæki í íslenzku viðskiptalífi, til hagnaðar fyrir sjálfa sig? Er það tilgangur þeirra?"

Félagsmálaráðherra vék síðan að öðrum stórum fyrirtækjum og sagði:

"Verzlunar- og þjónustufyrirtæki hafa á sama tíma stækkað gífurlega, völd þeirra gagnvart smærri fyrirtækjum, ekki sízt smærri framleiðslufyrirtækjum, eru mikil. Þræðirnir liggja svo víða að helzt minnir á vef risavaxinnar köngulóar. Þessi stórfyrirtæki geta í mörgum tilvikum ráðið því hverjir fái lifað og hverjir skuli deyja.

Ábyrgð þeirra, sem þessum stóru, virku - ég segi afskiptasömu fyrirtækjum ráða er mikil. Gildir þar einu hvort ræðir um verzlanir, fjölmiðla eða fjármálastofnanir. Það er hreint ekki sama hvernig á er haldið. Það eru ákveðin merki þess í íslenzku efnahags- og atvinnulífi að ekki valdi allir því hlutverki sem þeim hefur verið falið eða þeir hafa tekið að sér. Það eru merki um hringamyndun í viðskiptalífinu og umsvif einstakra aðila í atvinnulífinu eru að mínu mati að minnsta kosti á mörkum þess að standast siðferðilega mælikvarða."

Hér er augljóslega um að ræða mjög skýra, stefnumarkandi afstöðu af hálfu Framsóknarflokksins til þróunar viðskiptalífsins. Sérstaka athygli vekja þau ummæli Árna Magnússonar, hvort viðskiptabankar beiti kröftum og fjármunum til þess að "brytja niður fyrirtæki" sjálfum sér til hagnaðar.

Sú aðferð einkenndi bandarískt fjármálalíf á níunda áratugnum. Um þau vinnubrögð voru skrifaðar upplýsandi bækur á borð við "Þjófabæli" og "Villimenn við borgarhliðin" þar sem aðferðunum og afleiðingunum var lýst. Fólk missti vinnu sína, fyrirtækin voru skilin eftir í rúst en örfáir einstaklingar hurfu á brott með mikla fjármuni. Það eru vísbendingar um vinnubrögð af þessu tagi í íslenzku viðskiptalífi nú, sem Árni Magnússon vísar til í ræðu sinni. Það kann að vera tímabært að sérstök athugun fari fram á þessu tiltekna atriði, sem gæti verið verðugt rannsóknarefni fyrir viðskiptaháskóla og viðskiptafræðideildir háskóla.

Það vekur líka eftirtekt, að félagsmálaráðherra skuli lýsa vissum þáttum viðskiptalífsins sem "risavöxnum köngulóarvef". Það er lýsing, sem ekki er fjarri lagi.

Félagsmálaráðherra lauk umfjöllun sinni um þennan þátt atvinnulífsins með svofelldum orðum: "Það er að mínu viti eitthvert mikilvægasta hlutverk okkar stjórnmálamanna um þessar mundir að standa vaktina. Ábyrgð okkar er mikil en ábyrgð þeirra sem ég hér fjalla um er ekki minni, taki þeir til sín sem eiga. Við stjórnmálamenn þurfum að vera á varðbergi og það munum við verða. Íslenzka þjóðin þarf sömuleiðis að veita þessum nýju valdhöfum aðhald, þeir eiga ekki að fá tækifæri til að ofbjóða þjóðinni, sitjandi á einhvers konar heimatilbúnum friðarstóli."

Þegar horft er til þess hvernig Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur fjallað um framvindu mála á vettvangi viðskiptalífsins á undanförnum mánuðum, ítrekaðra aðvörunarorða Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, ræðu Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra á Hólum fyrir þremur misserum og nú ræðu Árna Magnússonar félagsmálaráðherra á Iðnþingi er ljóst, að samstaða stjórnarflokkanna um að veita þurfi viðnám er algjör.

Því miður eru litlar sem engar vísbendingar um að þeir aðilar viðskiptalífsins, sem hér eiga mestan hlut að máli, geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem að þeim snýr. Þótt þeir láti í orði sem þeir geri sér grein fyrir að umsvifum þeirra á Íslandi hljóti að vera takmörk sett vegna smæðar samfélagsins, haga þeir sér á annan veg á borði. Það er minni og minni ástæða til að ætla að þeim sé alvara með orðum sem fallið hafa af þeirra hálfu. Það eru mikil mistök. Það eru líka mistök að ætla sér að ögra Alþingi, hinum kjörnu fulltrúum þjóðarinnar. Þeir hafa þegar sýnt að þeir eru tilbúnir til þess að taka af skarið og munu áreiðanlega gera það aftur.

Telja má víst að pólitísk samstaða sé um þessi málefni á milli stjórnarflokkanna, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins. Umsagnir forystumanna Samfylkingar eru misvísandi, hvernig sem á því stendur. Hér áður fyrr hefði mátt ganga að því sem vísu að þau stjórnmálaöfl sem safnazt hafa saman undir hatti Samfylkingarinnar létu ekki sitt eftir liggja í þessum efnum. Vonandi skýrist stefna Samfylkingarinnar á næstu mánuðum á þann veg, að alger pólitísk samstaða verði á Alþingi um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að aðilar viðskiptalífsins "ofbjóði þjóðinni" eins og Árni Magnússon komst að orði á Iðnþingi.