STJÓRN Félags slysa- og bráðalækna hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu þar sem er lýst verulegum áhyggjum vegna þess óvissuástands sem ríkir varðandi starf lækna á þyrlum Landhelgisgæslunnar. Sl. 20 ár hafa læknar verið í áhöfn þyrlnanna.

STJÓRN Félags slysa- og bráðalækna hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu þar sem er lýst verulegum áhyggjum vegna þess óvissuástands sem ríkir varðandi starf lækna á þyrlum Landhelgisgæslunnar. Sl. 20 ár hafa læknar verið í áhöfn þyrlnanna.

"Ljóst er að umgengni um þyrlurnar, vinna um borð, sigæfingar og teymisvinna er mjög sérhæfð og krefst mikillar þjálfunar svo og viðhalds hennar með stöðugum æfingum. Samhæfing áhafnar er grundvallaratriði til að hámarksárangur náist.

Til þessara starfa hafa valist reyndir læknar sem í dag hafa ómetanlega reynslu ásamt því að yngri kollegar hafa bæst við og fengið þjálfun og tilsögn.

Útköll þyrlunnar eru oft óljós í upphafi og upplýsingaflæði stundum þannig að taka þarf skjótar læknisfræðilegar ákvarðanir, jafnvel eftir að lagt hefur verið af stað. Stundum gerist slíkt vegna nýrra upplýsinga og jafnvel vegna nýrra verkefna. Ljóst er að tæknileg atriði flugsins eru ekki í höndum lækna heldur flugmanna en læknisfræðileg ákvarðanataka og ábyrgð er í höndum læknanna. Stýrimaður í áhöfn þyrlunnar hefur hlotið menntun í sjúkraflutningum sem hefur verið til mikillar hjálpar. Ljóst er að meðan á flutningi sjúkra/slasaðra stendur getur ástand viðkomandi breyst skjótt og þarf þá að hafa hröð handtök og fumlausan huga.

Einnig er það ljóst að með fækkun lækna víða á landsbyggðinni hefur aðstaða til fyrstu móttöku slasaðra víða versnað og vaxandi traust hefur verið lagt á hjálp aðkomuaðila t.d. þyrlulækna svo og sjúkraflugs t.d. frá Akureyri.

Við mótmælum því öllum hugmyndum um minnkun eða niðurfellingu á þessari þjónustu lækna sem yrði til mikils skaða og gengisfellingar á bráðaþjónustunni í landinu."