Á iðnþingi var farið yfir áhrif samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, en 10 ár eru liðin frá gildistöku hans.
Á iðnþingi var farið yfir áhrif samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, en 10 ár eru liðin frá gildistöku hans. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍSLENSKA hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á síðasta áratug og ástæðurnar tengjast fyrst og fremst hinu breytta starfsumhverfi sem hefur fylgt EES-samningnum. Hagvöxtur hefur aukist og á rætur rekja til fjölbreyttari atvinnustarfsemi.

ÍSLENSKA hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á síðasta áratug og ástæðurnar tengjast fyrst og fremst hinu breytta starfsumhverfi sem hefur fylgt EES-samningnum. Hagvöxtur hefur aukist og á rætur rekja til fjölbreyttari atvinnustarfsemi. Hins vegar er það verulegt áhyggjuefni að bankarnir berjist um völd og áhrif í stærstu fyrirtækjum landsins og eins er miður að stækkun bankanna og hagræðing virðist fremur skila sér í auknum hagnaði þeirra sjálfra en lægri vöxtum og lægri kostnaði viðskiptamanna þeirra.

Þetta kom fram í ræðu Vilmundar Jósefssonar, formanns Samtaka iðnaðarins, á Iðnþingi í gær, en samtökin fagna tíu ára afmæli, en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlaðist gildi um svipað leyti og samtökin voru stofnuð.

Alröng mynd af íslensku samfélagi

Vilmundur minnti á að hlutdeild einstakra atvinnugreina í verðmætasköpun þjóðarbúsins hefði breyst mikið síðustu tíu árin; fimmtungur landsframleiðslunnar kæmi úr iðnaði og aðrar atvinnugreinar á borð við verslun, ferða- og fjármálaþjónustu hefðu eflst mjög á sama tíma. "Þó að þessar staðreyndir blasi við," sagði Vilmundur, "er eins og þeir sem ráða ferðinni í stjórnmálum og fjölmiðlum vilji ekki trúa þeim. Viðfangsefni stjórnmálamanna og fjölmiðla snúast fyrst og fremst um landbúnað og sjávarútveg og svo mjög að í huga flestra verður til alröng mynd af íslensku samfélagi." Vilmundur minnti á að framlag fiskveiða og vinnslu til landsframleiðslunnar væri 12,8% og að landbúnaðurinn skilaði 1,6% til landsframleiðslunnar. Hann sagði Íslendinga ofmeta hlut og mikilvægi sjávarútvegs í efnahagslífinu stórkostlega. "Það er til dæmis harla sérkennilegt að þegar hugsanlega aðild Íslands að ESB ber á góma er upphaf og endir þeirrar umræðu ávallt hagsmunir sjávarútvegsins. Þetta er afleiðing þess að í hugum flestra er samasemmerki á milli þeirra hagsmuna og þjóðarhagsmuna," sagði Vilmundur.

Vilmundur vék einnig að EES-samningnum og sagði æ fleiri hafa sannfærst um að hann fullnægði ekki lengur þörfum Íslands og Noregs.

"Íslendingar verða að horfast í augu við þá staðreynd að eina leiðin, sem er fær til þess að Íslendingar og íslenskt atvinnulíf njóti jafnstöðu í samfélagi Evrópuþjóða, er að ganga í ESB. Þessi leið er ekki eingöngu sú eina færa. Hún er einnig sú skynsamlegasta."

Gagnrýnir valdabaráttu bankanna í fyrirtækjunum

Þá taldi Vilmundur það vera verulegt áhyggjuefni að bankarnir berðust um völd og áhrif í stærstu fyrirtækjum landsins. Eðlilegt væri að þeir gripu í taumana þegar fyrirtæki lenti í rekstrarvanda eða þegar umbreytingarverkefni væru annars vegar. "Hins vegar er óþolandi þegar þeir berjast um yfirráð í stærstu fyrirtækjum landsins. Flestir fögnuðu einkavæðingu ríkisbankanna og útrás bankanna á erlenda markaði er afar ánægjuleg. Hitt er lakara að þessi stækkun bankanna og hagræðing virðist fremur skila sér í auknum hagnaði þeirra sjálfra en lægri vöxtum og lægri kostnaði viðskiptamanna þeirra," sagði Vilmundur.

Formaður Samtaka iðnaðarins gerði einnig samkeppni og samþjöppun að umtalsefni og sagði samruna og stækkun íslenskra fyrirtækja tvímælalaust vera af hinu góða og að í langflestum tilvikum væri engin hætta á samkeppnisröskun af þeim sökum. "Samtök iðnaðarins hafa haft þá skoðun að stjórnvöld eigi ekki að stjórna því hvernig atvinnulífið þróast og inngrip á borð við bann við samruna fyrirtækja eigi ekki að koma til greina nema í algerum undantekningartilvikum þegar mikil hætta er á samkeppnisröskun."

Vilmundur tók þó fram að að augljóst væri að samþjöppun á ýmsum sviðum verslunar og þjónustu væri orðin meiri en góðu hófi gegndi. "Eftir á að hyggja má segja að þarna hafi menn sofið á verðinum. Það getur verið bæði rétt og skynsamlegt að setja sérstakar reglur um markaðsráðandi fyrirtæki og hindra þau í að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Það hefur ekki verið gert en er löngu tímabært. Við megum ekki búa svo um hnútana að íslensk fyrirtæki megi ekki verða stór af því að íslenskur markaður er lítill."

Stórfyrirtæki hafa samfélagslegu hlutverki að gegna

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra ræddi um breytingar sem hefðu orðið á fjármálamarkaðinum undanfarin tíu ár sem sæjust af þeim gríðarkrafti sem hefði verið leystur úr læðingi við einkavæðingu bankanna og þeirri útrás sem henni hefði verið samfara.

"Auðvitað hefur þessi þróun ekki verið án vaxtarverkja," sagði iðnaðarráðherra, "og þeir eru ófáir sem óttast að samþjöppun á tilteknum sviðum viðskiptalífsins geti leitt til tímabundins óhagræðis fyrir neytendur. Þær áhyggjur eru ekki ástæðulausar. Ég tel þó að allir sjái að vextir og önnur almenn viðskiptakjör verða að vera sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum og að ekki geti ríkt skefjalaus ásókn í hámarksgróða án samfélagslegrar ábyrgðar."