DANSKI miðvallarleikmaðurinn Alex Nørlund, sem var til reynslu hjá úrvalsdeildarliði FH í vikunni, er farinn af landi brott.

DANSKI miðvallarleikmaðurinn Alex Nørlund, sem var til reynslu hjá úrvalsdeildarliði FH í vikunni, er farinn af landi brott. Hann hafði með sér í farteskinu tilboð frá Hafnarfjarðarliðinu og að sögn Ólafs Jóhannessonar, þjálfara FH-inga, þá heldur hann í vonina um að Nørlund taki tilboðinu.

"Hann vildi gefa sér góðan tíma til að fara yfir stöðuna áður en hann svaraði okkur en það verður komið á hreint áður en við höldum í æfingaferðina til Portúgals í lok mánaðarsins hvort hann komi. Nørlund er góður leikmaður sem yrði mikill liðsstyrkur í og ég held bara í vonina um að hann verði með okkur," sagði Ólafur við Morgunblaðið. Fyrir hjá FH eru tveir Danir, Allan Borgvardt og Tommy Nielsen, en þeir áttu frábært tímabil með liðinu á síðustu leiktíð.