— AP
ÞING Suður-Kóreu vék í gær Roh Moo-Hyun, forseta landsins, úr embætti fyrir meint brot á kosningalögum, spillingu og vanhæfni.

ÞING Suður-Kóreu vék í gær Roh Moo-Hyun, forseta landsins, úr embætti fyrir meint brot á kosningalögum, spillingu og vanhæfni. Embættissviptingin á sér ekkert fordæmi í sögu S-Kóreu og kom til nokkurra ryskinga í þingsalnum, eins og hér sést, þegar gengið var til atkvæða um tillöguna til embættismissis.

Alls greiddu 193 fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem meirihluta hefur á s-kóreska þinginu, atkvæði með tillögunni, tveir voru á móti. Atkvæði tveggja þriðju hluta þingheims þurfti til þess að tillagan yrði samþykkt.

47 þingmenn Uri-flokksins, sem styður Roh, greiddu ekki atkvæði og hrópuðu þeir slagorð gegn þingmeirihlutanum á meðan atkvæðagreiðslan stóð yfir.

Málið fer nú fyrir stjórnmáladómstól landsins.