TOGARANN Ingimund SH-332 tók niðri á grynningum í mynni Grundarfjarðar á sjöunda tímanum í gær, en losnaði af sjálfsdáðum rúmri klukkustund síðar og hélt för sinni áfram.

TOGARANN Ingimund SH-332 tók niðri á grynningum í mynni Grundarfjarðar á sjöunda tímanum í gær, en losnaði af sjálfsdáðum rúmri klukkustund síðar og hélt för sinni áfram. Ekki kom leki að skipinu og engin hætta talin á ferðum, að sögn Ásgeirs Inga Jónssonar, skipstjóra á Ingimundi. Fjórir voru um borð þegar óhappið varð.

Ingimundur, sem er 458 brúttótonna ísfisktogari, er gerður út frá Grundarfirði, en búið er að selja hann og var verið að sigla honum í slipp í Njarðvík þegar óhappið varð, að sögn Runólfs Guðmundssonar, eins af eigendum Guðmundar Runólfssonar hf, sem gerir skipið út. Skipið tók niðri á grynningum í mynni Grundarfjarðar, svokölluðum Vesturboða við Melrakkaey, um 5 sjómílur frá höfninni, að sögn björgunarsveitarmanna frá Björgunarsveitinni Klakki.

Mikill viðbúnaður var á Grundarfirði, og voru allar björgunarsveitir á norðanverðu Snæfellsnesi kallaðar út. Þegar í ljós kom að ekki var hætta á ferðum voru aðrar sveitir en Klakkur frá Grundarfirði afturkallaðar.

Siglt áfram til Njarðvíkur

Þegar Ingimundur losnaði af grynningunum og ljóst var að ekki hafði komið leki að skipinu var því siglt áfram til Njarðvíkur þar sem meta á skemmdir á því frekar. Togarinn Hringur SH 535 sem er í eigu Guðmundar Runólfssonar og farið hafði áleiðis til veiða skömmu áður sneri við er kall kom frá Ingimundi um að hann væri strandaður. Helgi SH 135 sem einnig er í eigu Guðmundar Runólfssonar hf var í höfn í Grundarfirði og hélt hann þegar á strandstað.

Þegar hann kom þangað hafði Ingimundur losnað af sjálfsdáðum og að sögn Arnars Kristjánssonar, skipstjóra á Helga, var ákveðið að Ingimundur héldi áfram för sinni suður þar sem enginn leki reyndist hafa komið að skipinu. Arnar sagði Hring myndi fylgja honum suður fyrir Snæfellsnes.