Má bjóða þér lambakjöt? Viðskiptavinum Nóatúns brá nokkuð í brún þegar Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra bauð fram aðstoð sína.
Má bjóða þér lambakjöt? Viðskiptavinum Nóatúns brá nokkuð í brún þegar Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra bauð fram aðstoð sína.
ÞEIM brá í brún, viðskiptavinum Nóatúns í gær, þegar þeir urðu þess áskynja að óvenju háttsettur kjötafgreiðslumaður bauð fram aðstoð sína.

ÞEIM brá í brún, viðskiptavinum Nóatúns í gær, þegar þeir urðu þess áskynja að óvenju háttsettur kjötafgreiðslumaður bauð fram aðstoð sína. Þarna var á ferðinni engin önnur en Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem opnaði Íslenska daga verslunarinnar í gær, og létti undir með afgreiðslufólki kjötborðsins í kjölfarið.

Þetta er í annað sinn sem Nóatún stendur fyrir Íslenskum dögum en að sögn Sigurðar Markússonar, rekstrarstjóra Nóatúns, er vel á fjórða tug fyrirtækja sem vinnur með versluninni að verkefninu. "Viðtökurnar eru alveg frábærar og enn betri en í fyrra," segir hann. "Við erum með fjöldann allan af alls konar vörum og það er gaman að því hvað fólk virðist þurfa að láta minna sig á hversu mikið er til af góðri íslenskri framleiðslu."

Sérstök áhersla er lögð á íslenska lambakjötið á dögunum og af því tilefni stóð Valgerður á bak við kjötborðið og afgreiddi um stund. "Sumir áttuðu sig ekki á því að það væri hún sem væri að afgreiða," segir Sigurður. "Ég sá eitt slíkt tilvik þar sem viðskiptavinur kipptist skyndilega við þegar hann sá hver var byrjaður að afgreiða hann. Enda er það ekki daglegt brauð að hafa svona hátt settan kjötafgreiðslumann í versluninni."