ÞETTA var nú frekar óheppilega orðað hjá henni greyinu, sagði mamma, jafnmiður sín og ég og vísaði til orða afgreiðslustúlkunnar um að ég gæti prófað að skoða föt í einni verslun sem seldi fatnað fyrir feitar konur. Já, svaraði ég og saug upp í nefið.

ÞETTA var nú frekar óheppilega orðað hjá henni greyinu, sagði mamma, jafnmiður sín og ég og vísaði til orða afgreiðslustúlkunnar um að ég gæti prófað að skoða föt í einni verslun sem seldi fatnað fyrir feitar konur. Já, svaraði ég og saug upp í nefið. Mig langaði að fara að grenja. Það sem eftir var dagsins laumaðist ég til að horfa á nánast allar konur á svæðinu og mæla þær út. Þarna gat ég ekki betur séð en að það væru fullt af konum mun feitari en ég og því fannst mér þetta enn alvarlegri orð frá ungu afgreiðslukonunni. Af þrjóskunni einni saman keypti ég síðan gallabuxur sem ég reyndar fór ekki í fyrr en mörgum vikum seinna. Ég ákvað líka að fara ekki strax á vigtina aftur, ég yrði bara þunglynd.

Reyndar er þunglyndi eftir barnsburð mjög algengt hjá konum. Mamma varð t.d. alltaf þunglynd eftir sínar þrjár barneignir og það erfiðasta fyrir hana var að á þeim tíma var engin umræða um fæðingarþunglyndi og hún skildi því ekkert í því hvers vegna henni leið svona illa. Hún hefur sagt mér að oft hafi hún farið að grenja út af engu og til að gera þetta allt saman verra, skildi pabbi náttúrulega ekki upp né niður í neinu. Sem betur fer er þetta breytt í dag og umræðan orðin opin. Í fyrstu skoðuninni þinni á heilsugæslunni var mér t.d. sagt að þegar ég kæmi með þig í 9 vikna skoðunina yrði ég látin taka próf sem ætti að meta andlega líðan mína. Mér fannst þetta ofboðslega sniðugt og sagði öllum vinkonum mínum frá þessu. Reyndar hlakkaði ég til að taka þetta próf, allt svona lagað er einmitt eitthvað sem ég hef áhuga á og finnst spennandi.

Meira á mánudag.