Björk Håkansson
Björk Håkansson
Björk Håkansson er Reykvíkingur af sænsku bergi brotin. Hún lauk BA-prófi í fjölmiðlafræðum frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku og MA-námi í milliríkjasamskiptum frá Westminster-háskólanum í Lundúnum. Björk starfar nú sem verkefnastjóri í markaðs- og samskiptadeild Háskóla Íslands. Sambýlismaður er Þiðrik Ch. Emilsson kvikmyndagerðarmaður og eiga þau samanlagt þrjú börn, Freyju, Diljá og Hákon.
Björk Håkansson er Reykvíkingur af sænsku bergi brotin. Hún lauk BA-prófi í fjölmiðlafræðum frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku og MA-námi í milliríkjasamskiptum frá Westminster-háskólanum í Lundúnum. Björk starfar nú sem verkefnastjóri í markaðs- og samskiptadeild Háskóla

Íslands.

Sambýlismaður er Þiðrik Ch. Emilsson kvikmyndagerðarmaður og eiga þau samanlagt þrjú börn, Freyju, Diljá og Hákon.

Allir hérlendu skólarnir sem bjóða nú upp á nám á háskólastigi kynna valkosti sína á sameiginlegri kynningu nú um helgina. Af því tilefni ræddi Morgunblaðið við Björk Håkansson, sem starfar hjá markaðs- og kynningardeild Háskóla Íslands, en kynningin fer fram á umráðasvæði skólans.

-Segðu okkur fyrst frá stað og stund...

"Háskólakynningin fer fram á svæði Háskóla Íslands á morgun, sunnudaginn 14. mars kl. 11-17. Allir háskólar á landinu standa að þessari kynningu þ.e. Garðyrkjuskólinn, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Hólaskóli, Kennaraháskóli Íslands, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Listaháskóli Íslands, Tækniháskóli Íslands og Viðskiptaháskólinn á Bifröst."

-Er þetta orðið að föstum lið í skólastarfinu hér á landi?

"Já, það er komin viss hefð á kynningu á námsframboði háskólanna. Hún hefur verið til í ýmsum myndum í gegnum árin og verður stöðugt umfangsmeiri, eftir því sem skólunum fjölgar. Háskólarnir eiga jafnframt í góðu samstarfi við framhaldsskólana um þennan viðburð, til þess að hann nýtist nemendum þeirra sem best, og gera til dæmis námsráðgjafar framhaldsskólanna ráð fyrir þessari kynningu í sínu skipulagi.

En það eru ekki einungis framhaldsskólanemar sem sækja kynninguna, hingað kemur fólk á öllum aldri, jafnvel heilu fjölskyldurnar. Af þeim sem skrá sig í háskóla ár hvert er aðeins um 65% að koma beint úr framhaldsskólum. Allir hinir er fólk á öllum aldri og það er í takt við tímann, samfélagið þarf á háskólamenntuðu fólki að halda."

-Hvað eru þetta margir háskólar?

"Í dag eru skólar á háskólastigi 10 talsins, sá nýjasti er Garðyrkjuskólinn. Skiptingin milli höfuðborgar og landsbyggðar er hnífjöfn, 5 eru í Reykjavík en 5 á Norður- og Vesturlandi."

-Hvernig verður kynningin sett upp?

"Hver háskóli verður með tiltekið svæði á kynningunni og þar munu fulltrúar skólanna, kennarar, nemendur og námsráðgjafar taka á móti gestum, svara fyrirspurnum og miðla upplýsingum og kynningarefni. Leiðbeiningar um staðsetningu hvers skóla og námsgreinarnar sem þeir bjóða verður dreift á kynningarsvæðinu auk þess sem ýmsar hagnýtar upplýsingar varðandi kynninguna er að finna á vefslóðinni www.haskolar.is"

-Er hægt að segja frá einhverju nýju eða athyglisverðu?

"Allir skólarnir brydda upp á einhverjum nýjungum, Viðskiptaháskólinn á Bifröst býður til dæmis nýtt meistaranám í mennta- og menningarstjórnun og lögfræði, við Háskólann á Akureyri verður nú í fyrsta sinn diplómanám í frumkvöðlafræði og kennsla er að hefjast í samfélags- og hagþróunarfræði og fjölmiðlafræði. Hvað varðar nýjungar við Tækniháskólann má nefna fjarnám í iðnfræði og fjarnám er að hefjast í rekstrardeild og við Háskólann í Reykjavík verður í fyrsta sinn í boði tungumálatengt viðskiptanám. Listaháskólinn fitjar nú upp á kennararéttindanámi fyrir tónlistarfólk og mun kynna nýtt fræðinám í leiklistardeild sem nefnist Fræði og framkvæmd. Hvað varðar nýjungar við Háskóla Íslands kemur mér í hug safnfræði, menningarfræði, upplýsingatækni í heilbrigðisvísindum og heilsuhagfræði. Þetta voru bara nokkur dæmi um þær nýjungar sem verða kynntar 14. mars og er þá ótalið allt sem háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Garðyrkjuskólinn hafa nýtt á sinni námskrá."

-Er aðsókn á svona kynningar góð og standa þær undir væntingum?

"Mikil aðsókn hefur verið á háskólakynninguna og hún eykst ár frá ári. Þarna gefst tilvonandi háskólastúdentum tækifæri til þess að ná persónulegu sambandi við bæði kennara og nemendur, þeir hafa möguleika á að bera saman námsleiðir milli skóla og geta safnað miklu magni kynningarefnis og upplýsinga á einum stað. Það er ekki annað að sjá en að gestir séu hæstánægðir með þetta fyrirkomulag, stemningin er einstök. Það er mikil orka og eftirvænting á svona stað, þar sem fólk er að taka stórar ákvarðanir um framtíðina."

-Hvernig kemur það út að þessir samkeppnisaðilar sameinist á þennan hátt?

"Sameiginleg kynning háskólanna er fyrst og fremst hugsuð sem þjónusta fyrir tilvonandi nemendur og samstarfsnefndin sem stendur að kynningunni er einfaldlega þeirra skoðunar að sú þjónusta sé best veitt með því að standa saman að viðburðinum. Hvað samkeppnina varðar þá er hún vissulega fyrir hendi, það er alveg ljóst. Í þessu samhengi má samt ekki gleyma því að milli háskólanna er einnig mikið samstarf með einum eða öðrum hætti."