Íslandsmeistaramót í samkvæmisdönsum með frjálsri aðferð verður haldið í Laugardalshöllinni í Reykjavík á morgun, sunnudaginn 14. mars.
Íslandsmeistaramót í samkvæmisdönsum með frjálsri aðferð verður haldið í Laugardalshöllinni í Reykjavík á morgun, sunnudaginn 14. mars. Keppt er til Íslandsmeistaratitils í samanlögðum árangri í standarddönsum og suður-amerískum dönsum, en auk þess fer fram keppni í samkvæmisdönsum með grunnaðferð og danssýningar hjá flokkum þeirra sem eru að hefja þjálfun í dansi. Fimm erlendir dómarar munu dæma keppnina en að öðru leyti eru það félagar dansíþróttafélaganna sem vinna við mótshaldið.

Laugardalshöllin verður opnuð kl 10.30, en formlega hefst keppnin kl 11. Kl. 13 verður innmars þátttakenda og setning móts.

Börn fædd árið 1998 eða síðar fá frían aðgang að mótinu og einnig 67 ára og eldri. Aðgangseyrir fyrir aðra er 1.200 kr.

Forysta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs verður með opinn fund á Hótel Borgarnesi á morgun, sunnudaginn 14. mars kl. 16. Á fundinum verða Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, Katrín Jakobsdóttir varaformaður, Drífa Snædal ritari og Jón Bjarnason, þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Mánudaginn 15. mars munu þau heimsækja stofnanir og fyrirtæki í Borgarnesi.