GAT kom á vatnsleiðsluna til Vestmannaeyja síðdegis á fimmtudag, en leki kom að þessari sömu leiðslu í fyrra, á svipuðum árstíma. Öflugar dælur hafa verið settar upp í Vestmannaeyjum sem soga vatnið úr leiðslunni og halda þannig þrýstingi uppi í henni.

GAT kom á vatnsleiðsluna til Vestmannaeyja síðdegis á fimmtudag, en leki kom að þessari sömu leiðslu í fyrra, á svipuðum árstíma. Öflugar dælur hafa verið settar upp í Vestmannaeyjum sem soga vatnið úr leiðslunni og halda þannig þrýstingi uppi í henni. Ekki er séð fram á að nauðsynlegt verði að skammta vatn í Vestmannaeyjum, vegna lekans.

Friðrik Friðriksson, veitustjóri Hitaveitu Suðurnesja í Vestmannaeyjum segir að viðgerð hefjist um leið og veður á þessum slóðum lægi, en ekki er nákvæmlega vitað hvar gatið á leiðslunni er. "Við vonumst til að verða mun sneggri til þess að koma þessu í lag núna, því við erum kannski betur þjálfaðir en í fyrra og kunnum tæknina," segir Friðrik. Munu þeir sjúga sjó um leiðsluna og mæla fjarlægðina í gatið með því hversu langan tíma það tekur sjóvatn að berast til Eyja, en sú aðferð gaf góða raun á síðasta ári.

Leiðslan gefur nú um 30 lítra á sekúndu, en þegar lekinn hófst var verið að dæla 45 lítrum yfir. Friðrik segir að vatnsnotkun hafi verið mjög mikil að undanförnu vegna hrognavinnslu, en vatnið er notað til að hreinsa hrognin. "Við erum búin að setja öflugar dælur sem við áttum klárar, sem sjúga á móti því sem við dælum og þannig komum við vatninu yfir," segir Friðrik.

Friðrik segist ekki sjá fram á að það þurfi að grípa til vatnsskömmtunar, eftir þær aðgerðir sem búið er að fara út í nú þegar.