Fulltrúar æskunnar: Brynjólfur Magnússon og Helga Guðbjarnardóttir, nemendur í Grunnskóla Þorlákshafnar, fluttu erindi á ráðstefnunni.
Fulltrúar æskunnar: Brynjólfur Magnússon og Helga Guðbjarnardóttir, nemendur í Grunnskóla Þorlákshafnar, fluttu erindi á ráðstefnunni. — Morgunblaðið/Jón H. Sigurmundsson
Þorlákshöfn | Grunnskólinn í Þorlákshöfn gekkst nýverið fyrir menntaráðstefnu í Ráðhúsi Ölfuss. Ráðstefnuna sóttu um 60 manns og komu sumir um langan veg.

Þorlákshöfn | Grunnskólinn í Þorlákshöfn gekkst nýverið fyrir menntaráðstefnu í Ráðhúsi Ölfuss. Ráðstefnuna sóttu um 60 manns og komu sumir um langan veg. Ráðstefnan, sem var öllum opin endurgjaldslaust, höfðaði til skólafólks, nemenda og foreldra þeirra. Margar ábendingar komu fram á ráðstefnu, m.a. um samstarf foreldra og skóla og heimavinnu nemenda.

Halldór Sigurðsson skólastjóri setti ráðstefnuna en Jón H. Sigurmundsson aðstoðarskólastjóri, sem hafði veg og vanda af undirbúningi, stjórnaði ráðstefnunni. Stefán Guðmundsson, formaður skólanefndar og bæjarstjórnarfulltrúi, var fyrsti ræðumaður og nefndi hann erindi sitt: "Grunnskóli í fóstri sveitarfélags". Fram kom í erindi Stefáns að bæjarstjórn gerir tiltölulega vel við skólann og eru óvíða jafnfáir nemendur á hvern starfsmann í skólum landsins.

"Barnið þitt er nemandi minn"

Ingibjörg Auðunsdóttir, kennsluráðgjafi á skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri, flutti erindi sem hún nefndi: "Þróun samstarfs skóla og heimila." Hún talaði um að kennarar töluðu um "erfitt, slakt" samstarf við foreldra. Allir vilja samstarf og rannsóknir sýna að samhengi er milli jákvæðs samstarfs og námsárangurs. Á forsendum hverra er samstarfið, það getur verið erfitt fyrir foreldra að mæta á fundi í skólanum eins og í yfirheyrslu, gott er að hafa samstarfsfundi stundum á heimilum nemenda. Ingibjörg kynnti samstarfsáætlun við Oddeyrarskóla þar sem foreldrasamstarf er.

Fjóla Kristín Hermannsdóttir, kennari í 10. bekk við Oddeyrarskóla, kynnti hvernig þeim í Oddeyrarskóla hefði gengið með verkefnið. Erindið nefndi hún: "Heimanám; samstarf foreldra og kennara." Fjóla sagði að vissulega hefði samstarf við foreldra batnað en skil á heimavinnu hefðu áfram verið góð hjá þeim sem voru góðir fyrir og nokkur hópur bætti sig fljótlega en of stór hópur var enn með óviðunandi heimavinnuskil.

Brynjólfur Magnússon, nemandi í 10. bekk, og Helga Guðbjarnardóttir, nemandi í 9. bekk, bæði í Grunnskólanum í Þorlákshöfn fluttu erindi sem þau nefndu: "Áhrif hvatningar kennara/foreldra á námsárangur." Þau voru sammála um að hvatning hvaðan sem hún kæmi væri af hinu góða en tóku fram að stöðugt nöldur og neikvæður eftirrekstur virkaði öfugt. Hrós gefur aukið sjálfstraust. Það er ekki síður mikilvægt að sýna unglingum eftirtekt og umhyggju en yngri börnum.

Sólveig Karvelsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands, flutti erindi sem hún nefndi: "Barnið þitt er nemandi minn." Erindið fjallaði um samskipti og tengsl foreldra og kennara. Sólveig sagði að kennarar ættu að hitta foreldra í upphafi hvers skólaárs og stofna til samstarfs, tengsla og mynda traust. Þetta samstarf og traust ætti að endast alla skólagöngu barnsins það má ekki sleppa hendinni af þó að börn breytist í ungling. Börn lenda útundan í nútíma samfélagi. Foreldrar vilja gott samstarf og vinna að velferð barnsins í skólanum en það er ekki alltaf auðvelt því foreldrar vinna langan vinnudag og skilningur vinnuveitenda mætti vera meiri.

Að lokum voru pallborðsumræður.