ENSKI knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United, ætlar að áfrýja átta mánaða leikbanni sem hann var úrskurðaður í fyrir að mæta ekki í lyfjapróf. Mun Ferdinand m.a.
ENSKI knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United, ætlar að áfrýja átta mánaða leikbanni sem hann var úrskurðaður í fyrir að mæta ekki í lyfjapróf. Mun Ferdinand m.a. leggja fram hársýni sem hann segir að sanni að hann hafi aldrei neytt ólöglegra lyfja og segja enskir fjölmiðlar að leikmaðurinn voni að hann verði sýknaður á grundvelli þessa. Ferdinand hóf að afplána keppnisbannið í janúar en áfrýjun hans verður tekin fyrir í næstu viku. Frá því Ferdinand hóf bannið hefur hvorki gengið né rekið hjá Englandsmeisturunum. Þeir eru níu stigum á eftir Arsenal í baráttunni um titilinn og féllu úr leik í Meistaradeildinni í vikunni. Rannsóknir á hári manns geta leitt í ljós hvort hann hefur tekið steralyf en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hár hefur verið notað í lyfjamáli. Christoph Daum var rekinn sem þjálfari þýska liðsins Bayer Leverkusen árið 2000 þegar hann féll á svipuðu prófi, sem hann vonaði að myndi afsanna fullyrðingar tímarits um að hann hefði tekið kókaín. Verði leikbann Ferdinands staðfest mun hann ekki geta leikið með liði sínu, Manchester United, og enska landsliðinu, fyrr en 20. september.