NÍNA Ósk Kristinsdóttir, markadróttning úr Val og annar af nýliðunum í íslenska landsliðinu í knattspyrnu, segist hafa orðið mjög hissa en ánægð þegar hún fékk þau skilaboð að hún hefði verið valin í landsliðshópinn fyrir leikinn á móti Skotum sem fram...

NÍNA Ósk Kristinsdóttir, markadróttning úr Val og annar af nýliðunum í íslenska landsliðinu í knattspyrnu, segist hafa orðið mjög hissa en ánægð þegar hún fékk þau skilaboð að hún hefði verið valin í landsliðshópinn fyrir leikinn á móti Skotum sem fram fer í Egilshöllinni í dag.

Nína, sem er 19 ára gamall Sandgerðingur, hefur farið mikinn með liði Vals og hún gerði sér lítið fyrir og skoraði 21 mark fyrir Val á Reykjavíkurmótinu í sex leikjum, þar af skoraði hún sjö í einum leik gegn KR og sex á móti ÍBV.

"Þetta kom mér mjög á óvart og ég átti alls ekki von á að verða valin í landsliðið. Ég hef stefnt að þessu síðan ég byrjaði að æfa níu ára gömul svo ég er auðvitað rosalega ánægð," sagði Nína Ósk við Morgunblaðið.

"Ég vonast innilega eftir því að fá tækifæri í leiknum og ég mun þá reyna að gera mitt besta til að skora en aðalmálið er að liðinu gangi vel."