Logi Gunnarsson
Logi Gunnarsson
LOGI Gunnarsson, körfuknattleiksmaður hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Giessen 46'ers, fór enn og aftur úr axlarlið á æfingu liðsins í vikunni og nú er útséð með að hann þarf að gangast undir aðgerð og leikur því ekki meira með liði sínu á yfirstandandi...

LOGI Gunnarsson, körfuknattleiksmaður hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Giessen 46'ers, fór enn og aftur úr axlarlið á æfingu liðsins í vikunni og nú er útséð með að hann þarf að gangast undir aðgerð og leikur því ekki meira með liði sínu á yfirstandandi leiktíð. Þetta var í þriðja sinn sem Logi fer úr axlarlið en hann var rétt búinn að jafna sig eftir að hafa farið úr axlarlið í nóvember. Logi átti mjög góðan leik um síðustu helgi og skoraði 14 stig í tapleik gegn Leverkusen en á æfingu á þriðjudagskvöldið tóku meiðslin sig upp á nýjan leik.

Logi segir á heimasíðu Njarðvíkinga að illa hafi gengið að koma öxlinni í liðinn og hafi hann þurft að dvelja eina nótt á sjúkrahúsi þar sem hann var svæfður meðan öxlinni var kippt í liðinn. Logi segir ennfremur að hann fari í aðgerð á næstunni en enn sé ekki ljóst hvort hún verði framkvæmd hér heima eða í Þýskalandi.

Logi er samningsbundinn Giessen 46'ers til ársins 2005. Liðinu hefur vegnað illa í þýsku úrvalsdeildinni og er í næstneðsta sæti af 16 liðum með tíu stig eftir 19 leiki.