STEFÁN Hallgrímsson úr ÍR, varð í fyrrakvöld heimsmeistari í fimmtarþraut í flokki 55-59 ára heimsmeistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum sem stendur yfir þessa dagana í Sindelfingen í Þýskalandi.

STEFÁN Hallgrímsson úr ÍR, varð í fyrrakvöld heimsmeistari í fimmtarþraut í flokki 55-59 ára heimsmeistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum sem stendur yfir þessa dagana í Sindelfingen í Þýskalandi. Auk Stefáns keppa á mótinu Kristján Gissurarson og Árný Heiðarsdóttir. Keppendur í fimmtarþrautinni voru 21 alls talsins og hlaut Stefán 4.051 stig, 148 stigum meira en næsti keppandi.

Stefán var á árum áður einn fremsti frjálsíþróttamaður þjóðarinnar og átti Íslandsmetin í tugþraut og í 400 m grindahlaupi um nokkurra ára skeið.

Stefán hljóp 60 metra grindahlaup á 10,31 sek. Stökk 4,85 metra í langstökki, varpaði kúlunni 13,04 metra, stökk 1,52 metra í hástökki og hljóp 1.000 metrana á 3.27,80 mínútu.

Árný varð í 9. sæti í langstökki í flokki 45-49 þegar hún stökk 4,06 metra, fimmta í þrístökki me 9,50 metra og hún lenti í 11. sæti í 60 metra hlaupi á 8,60 sek. Í dag keppa þeir Stefán og Kristján í stangarstökki.