ÞAÐ eru kampakátir liðsmenn KR sem eru komnir í 1-0 forystu eftir sigur á heimamönnum í Grindavík í stórskemmtilegum og hröðum leik í gærkvöld en um var að ræða fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik í karlaflokki. Gestirnir sigruðu, 99:95, eftir að hafa verið undir í hálfleik, 49:46.

Heimamenn voru mun grimmari í fyrsta leikhluta og virtust ætla að rúlla yfir gestina á fyrstu mínútum leiksins. Eftir tæpar átta mínútur var staðan orðin 24:11 og heimamenn í baráttuhug. Gestirnir voru ekki á því að láta fara eitthvað illa með sig og bitu frá sér næstu mínúturnar. KR-liðið komst yfir, 25:27, í byrjun annars leikhluta og heimamenn virtust ekki alveg finna taktinn aftur. Jafnræði var með liðunum til loka fyrri hálfleiks og mikill hraði hjá báðum liðum. Hálfleikstölurnar voru 49:46 fyrir heimamenn sem byrjuðu seinni hálfleik nokkuð vel með Pál Axel og Darrel Lewis í fínum gír. Gestirnir héldu í við heimamenn en sigu svo fram úr í lok fyrri hálfleiks og héldu þeirri forustu til loka leiks og bættu jafnvel örlítið í. Smávegis spenna hljóp í leikinn undir lok hans þegar heimamenn náðu að minnka forustu gestanna í eitt stig eftir að hafa verið 10 stigum undir um miðjan fjórða leikhluta. Gestirnir náðu þó að vinna leikinn og mikil sigurgleði braust út í þeirra herbúðum á meðan heimamenn gengu hnípnir til búningsklefa. Gestirnir sigruðu, 99:95.

Bestir í liði gestanna voru þeir Skarphéðinn Ingason, Magni Hafsteinsson og Elvin Mims. Hjá heimamönnum voru Darrel Lewis, Páll Axel Vilbergsson og Anthony Jones bestir.

"Það er bara 1-0 og það þarf að vinna tvo leiki til að komast áfram. Þetta var sá leikur sem flestir reiknuðu með að yrði mest spennandi og skemmtilegastur og hann var það," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, í leikslok. "Það má segja að nú séum við komnir með heimaréttinn en við þurfum að spila betur en þetta á sunnudaginn til að slá Grindavík úr keppni. Það er margt sem við getum lagað fyrir næsta leik. Menn langaði virkilega að sigra hér í kvöld og þá sérstaklega miðað við hvernig veturinn hefur þróast. Okkur líkar vel að spila í Grindavík og fyrir mig skiptir þetta miklu máli því ég á ættir að rekja hingað," sagði Ingi Þór.

"Þetta leit vel út fyrstu 6-7 mínúturnar. Við ætluðum að keyra á þá og pressa bakverðina hjá þeim. Mikil keyrsla í byrjun en svo duttum við niður," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur. "Leikurinn var mjög hraður en ég er ekki ánægður með vörnina hjá okkur. Við vorum alltaf á eftir þeim og svo hittu þeir mjög vel úr þriggja stiga skotum. Við prufuðum ýmis varnarafbrigði en það dugði ekki í kvöld. Við mætum dýrvitlausir á sunnudaginn og lítum á þennan leik sem áminningu því við erum ekki á leið í frí," sagði Friðrik Ingi.

Garðar Páll Vignisson skrifar