Ríkisstjórnin ákvað að flaggað yrði í hálfa stöng við opinberar byggingar í gær í ljósi hörmunganna sem hryðjuverkin í Madríd hafa valdið.
Ríkisstjórnin ákvað að flaggað yrði í hálfa stöng við opinberar byggingar í gær í ljósi hörmunganna sem hryðjuverkin í Madríd hafa valdið. — Morgunblaðið/Sverrir
FLAGGAÐ var í hálfa stöng við opinberar byggingar í gær vegna sprengjutilræðanna hörmulegu í Madríd í fyrradag.

FLAGGAÐ var í hálfa stöng við opinberar byggingar í gær vegna sprengjutilræðanna hörmulegu í Madríd í fyrradag. Þá ákvað forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, að aflýsa hinni árlegu veislu sem halda átti á Bessastöðum í gærkvöldi til heiðurs ríkisstjórn, erlendum sendiherrum á Íslandi og æðstu embættismönnum íslenska ríkisins.

Hjá utanríkisráðuneytinu fengust þær upplýsingar í gær að Sigríður Snævarr, sendiherra Íslands á Spáni með aðsetur í Frakklandi, hefði farið til Madrídar í gær til að leita upplýsinga og vera Íslendingum innan handar. Kornelíus Sigmundsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, segir að vel hafi verið fylgst með málinu frá upphafi, þ.m.t. listum yfir hina látnu en þar er ekkert íslenskt nafn að finna eða á listum yfir slasaða. Kornelíus bendir hins vegar á að ekki sé búið að nafngreina alla slasaða og að ráðuneytið sé því við öllu búið.

Vitað er um tólf Íslendinga sem fasta búsetu hafa í Madríd. Þar við bætist hins vegar fólk sem þarna er til skemmri tíma, au pair-stúlkur, fræðimenn og námsmenn. Er erfitt að áætla hversu marga er þar um að ræða en þó eru það án efa nokkrir tugir Íslendinga.

Geta ritað nafn í minningabók

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, hefur sent prestum í landinu hvatningu til að biðja fyrir þeim sem líða vegna hryðjuverkanna í Madríd.

Íslendingum gefst kostur á því á mánudag að rita nafn sitt í minningarbók um fórnarlömb árásanna og verður minningarbókin á skrifstofu ræðismanns Spánar, Þorgeirs Baldurssonar, hjá prentsmiðjunni Odda, Höfðabakka 3-7.